Auglýsing

Vigfús Bjarni vill verða forseti: „Ég hef hugrekki til ganga inn í þessar aðstæður og tala upphátt“

Vigfús Bjarni Albertsson sjúkrahúsprestur tilkynnti í dag að hann hyggst gefa kost á sér sem næsti forseti Íslands. Vigfús Bjarni sagði frá ákvörðun sinni á Hótel Borg í dag eftir að hann tók við 500 áskorunum um að gefa kost á sér ásamt eiginkonu sinni, Valdísi Ösp.

„Vitrasta fólk sem ég hef umgengist eru börnin,“ sagði Vigfús Bjarni á Hótel Borg í dag.

Okkur finnst að embættið eigi að hafa nærveru og rödd sem tekur mið af börnum þessa lands, kynslóðunum sem ætla að taka við samfélaginu, þeim kynslóðum sem munu varðveita þetta samfélag og landið í framtíðinni. Það er merkileg staðreynd og góð, börnin kalla alltaf það besta fram í okkur.

Hann sagði að forseti Íslands eigi að lyfta því sem vel er gert í samfélaginu. „Þakklæti er rannsökuð tilfinning, hún breytir okkur. Það að iðka þetta þakklæti er til dæmis að beina sjónum okkar að og tjá þakklæti til kynslóðanna sem hafa lokið vinnuævinni,“ sagði hann.

„Embættið þarf að minna á þetta þakklæti því það liggur svo mikill styrkur og viska í kynslóðunum. Kynslóðirnar sem hafa verið á undan okkur hafa lifað með og í þessu landi. Líf okkar er þeim að þakka, dugnaði og grunngildum þeirra.“

Vigfús Bjarni fjallaði einnig um upplifun sína sem starfsmaður Landspítalans. „Forsetaembættið getur minnt á það sem er mikilvægast í samfélagsgerð okkar, að við varðveitum hvert annað, það gerist með því að embættið heimsæki hið daglega líf,“ sagði hann.

„Hið daglega líf á sér stað sem dæmi inni á heilbrigðisstofnunum þessa lands. Ég þekki það eftir ellefu ára starf inni á Þjóðarskjúkrahúsinu að þar hefur átt sér stað breyting. Það er staðreynd sem við getum svo mörg bent á. Álag á starfsfólk hefur aldrei verið meira, áhyggjur fólks vegna þjónustu hefur aldrei verið meiri. Embættið getur gefið þessu fólki rödd.

Ég er ekki að tala um rifrildi um hagtölur eða rifrildi við stjórnmálafólk heldur vil ég segja frá reynslu fólks. Segja frá reynslu þeirra sem þurfa á aðstoðinni að halda. Hið merkilega framtak Kára Stefánssonar þar sem hann gaf þjóðinni tækifæri til að tjá sig er vísbending um hvernig samfélagsgerð við viljum. Það er svo gott að fá að tjá sig því þegar við tjáum okkur eykst ábyrgð okkar. Það er svo gott að finna að rödd okkar skiptir máli. Það eru svo mörg félög, grasrótarhópar sem standa vörð um fólkið í landinu, hjálpa fólki í erfiðri reynslu. Það er gott að segja frá slíku starfi. Ég hef hugrekki til ganga inn í þessar aðstæður og tala upphátt.“

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing