Auglýsing

Vilhjálmur Bjarnason veður í Pírata: „Kenna sig við skipulagða glæpastarfsemi“

Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði á alþingi í dag að sér væri fyrirmunað að skilja fylgi Pírata enda kenndi flokkurinn sig við skipulagða glæpastarfsemi. Hann sagði stefnuskrá Pírata þunna og sagðist vona að nýjar skoðanakannanir væru aðeins gult spjald á Sjálfstæðisflokkinn.

Sjá einnig: Hundruð Íslendinga ganga til liðs við Pírata

„Í þessari skoðanakönnun kom í ljós að flokkur Pírata, þ.e.a.s flokkur sem kennir sig við skipulagða glæpastarfsemi, að hann nýtur 30 prósent kjörfylgis miðað við skoðanakannanir,“ sagði Vilhjálmur og uppskar mótmæli frá Birgittu Jónsdóttur, kafteins Pírata. Hann hélt áfram:

Það hneykslast einhverjir hérna á orðum mínum en ef sjóræningjastarfsemi er ekki skipulögð glæpastarfsemi þá skil ég ekki orðið.

Vilhjálmur sagðist einnig vilja benda á að Píratar væru með þunna stefnuskrá en vildu þó berjast gegn spillingu.

„Það er gott og vel. Síðan þá gerast þau ósköp um helgina að kafteinn Pírata býðst til að sameina alla andstöðu, hvort sem hún er til hægri eða vinstri,“ sagði Vilhjálmur.

Vísaði hann þar í hugmyndir Birgittu Jónsdóttur um kosningabandalag minnihlutaflokkanna. Píratinn Helgi Hrafn sagði svo reyndar í Eyjunni á Stöð 2 að umræður um kosningabandalag stjórnarandstöðuflokkanna væru ótímabærar.

„Ég vona það að þessi skoðanakönnun hafi aðeins verið lítið gult spjald til míns flokks, og jafnvel annarra flokka, og að menn taki afstöðu hér á þingi en sitji ekki hjá eins og er algengast hjá þessum flokki,“ sagði Vilhjálmur að lokum.

Fylgi Pírata hefur rokið upp í skoðanakönnunum undanfarið. Flokkurinn er nú með mest fylgi allra flokka ásamt Sjálfstæðisflokknum. Þetta kemur fram í skoðanakönnun MMR sem gerð var á tímabilinu 13. til 18. mars.

Fylgi Pírata mældist nú 23,9%, borið saman við 12,8% í síðustu könnun. Fylgi Sjálfstæðisflokksins mældist hins vegar nú 23,4% samanborið við 25,5% í síðustu könnun. Munurinn á fylgi flokkanna er innan tölfræðilegra vikmarka.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing