„Skilaboðin sem við viljum senda eru… ef þú reynir þetta aftur, þá munum við skjóta þig,“ sagði Daniel Hardin, einn þeirra sem hefur mótmælt fyrir utan heimili kynferðisbrotamannsins Brock Turner eftir að honum var sleppt úr fangelsi á föstudaginn.
Turner afplánaði helming af sex mánaða fangelsisdómi sem hann hlaut fyrir að nauðga rænulausri stúlku á skólalóð Stanford-háskóla.
Sjá einnig: Brock Turner látinn laus eftir þrjá mánuði í fangelsi, nauðgaði rænulausri stúlku á lóð Stanford-háskóla
Mótmælendur söfnuðust saman fyrir utan heimili foreldra Turner í Belbrook í Ohio í Bandaríkjunum. Margir þeirra voru vopnaðir byssum, aðrir báru skilti og þá var einnig búið að krota skilaboð til Turner á gangstéttina og götuna. Mótmælendurnir eru ósáttir við að hann hafi aðeins þurft að sitja inn í þrjá mánuði.
#BrockTurner may have gotten a light sentence but the neighbors not making it easy for him to live outside of jail pic.twitter.com/k4DXAF7AY2
— coke (@wildd_child) September 3, 2016
Jaimes Cambell keypti riffil af gerðinni AR-15 til að hafa meðferðis á mótmælin. Hann segist vilja koma í veg fyrir að Turner geti lifað eðlilegu lífi. „Við viljum að hann viti að fólk mun ekki bara gleyma því sem hann gerði,“ sagði hann í samtali við blaðamann Guardian.
Móðir sem vildi ekki láta nafns síns getið tók börnin sín með sér á mótmælin og sagði það hluta af uppeldinu. Hún vildi að þau lærðu að með því að brjóta gegn einhverjum í tuttugu mínútur geti eyðilagt líf manns fyrir lífstíð.
Hún er nágranni Turner-fjölskyldunnar og er afar ósátt við að hafa þau í hverfinu. Sagði hún fjölskylduna vera krabbamein í hennar augum og mikilvægt væri að þau færu úr hverfinu sem fyrst.
Hópurinn ætlar að halda áfram að mótmæla fyrir utan hús Turner-fjölskyldunnar en ætla þó ekki að gera boð á undan sér. „Við viljum ekki vara þau við svo þau geti farið út og fengið sér góðan kvöldmat,“ segir Daniel, 26 ára. „Við viljum að honum líði illa á heimili sínu.“