Hópurinn sem kallar sig GEM Iceland hefur reynt að lokka fólk til sín í einhverskonar gjaldeyrisviðskipti. Í frétt Viðskiptablaðsins um málið kemur fram að margt bendi til þess að um pýramídasvindl sé að ræða. Hópurinn hefur fjarlægt kynningarmyndband af YouTube sem tekið var upp á snekkju rétt fyrir utan Reykjavíkurhöfn. Sjáðu myndbandið hér fyrir ofan.
„Við erum hér til að aðstoða alla við að þéna meiri peninga. Við viljum þéna mikla peninga af því að við þurfum að hafa peningana í réttum höndum,“ segir í myndbandinu.
Í umfjöllun Viðskiptablaðsins segir að þjónustan sem hópurinn kynnir heiti WealthGenerator en hún hafi áður hlotið neikvæða umfjöllun erlendis. Þá segir einnig að fulltrúar hópsins virðist ekki gera sér grein fyrir því að Íslendingar búi við fjármagnshöft en ólíklegt er að hópurinn hafi fengið undanþágu frá Seðlabanka Íslands.
Kerfi WealthGenerator í Bandaríkjum virkar þannig að fulltrúi félagsins hefur samband við fólk, fræðir þá um þjónustuna og fær aðra í áskrift. Áskrifendur eru svo fengnir í að lokka aðra í viðskipti og þannig fer boltinn að rúlla, líkt og kemur fram í frétt Viðskiptablaðsins.
Á heimasíðu Wealth Generator er hægt að velja á milli áskriftarleiða en þjónustan lofar einnig að kenna fólki á gjaldeyrisviðskipti. Á Íslandi hafa nú þegar við haldnir fundir sem eiga að sýna fram á að allir geti grætt á gjaldeyrisviðskiptum.
Kynningarmyndbandið hefur verið fjarlægt af YouTube en hægt er að horfa á það hér fyrir ofan.