Auglýsing

Vilja banna laun fyrir fundarsetu kjörinna fulltrúa: „Þessi laun afhjúpa spillingu”

Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi sósíalista mun á fyrsta fundi nýrrar borgarstjórnar leggja fram tillögu um að banna stjórnendum og kjörnum fulltrúum borgarinnar að þiggja laun fyrir fundi í stjórnum, ráðum og nefndum sem haldnir eru á vinnutíma.

Sanna segir að það sé ekki eðlilegt að borgarstjóri Reykjavíkur og bæjarstjórar nágrannasveitarfélagana séu farnir að taka sér hærri laun en borgarstjórar í New York London og París.

„Við ættum að horfast í augu við að þessi laun afhjúpa spillingu stjórnmálaforystunnar og við ættum að gera eitthvað í því. Fyrsta skrefið ætti að vera að banna þessu fólki að taka þóknanir fyrir fundi sem það situr í vinnutíma sinnar aðalvinnu og sem eru því augljóslega hluti af þeim starfsskyldum sem það fær greitt fyrir af föstu launum,“ segir Sanna.

Sósíalistaflokkurinn gagnrýnir það að Dagur B. Eggertsson hafi fengið rúmar 492 þúsund krónur fyrir hvern fund sem hann sat með Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins á dögunum. Tímakaup Dags var því nærri 330 þúsund að meðaltali fyrir fundina.

Daníel Örn Arnarsson, varaborgarfulltrúi sósíalista og stjórnarmaður í Eflingu, stéttarfélagi segir að þessi laun séu komin út úr öllu korti og séu ekkert anað en sjálftaka æðstu stjórnenda sveitarfélaganna og að það sé alvarlegt mál.

„Hún er ekki bara eitur í stjórnkerfinu og innan stjórnmálanna, spilling sem grefur undan heiðarlegum stjórnmálum, heldur er hún algjörlega óþolandi vanvirðing gagnvart heiðarlegu starfsfólki. Konan sem skúrar skrifstofu Dags B. Eggertsson er líklega með lágmarkslaun, 300 þúsund krónur á mánuði. Dagur sjálfur tekur síðan 330 þúsund krónur í þóknun fyrir einn klukkutíma á fundi hjá slökkviliðinu. Borgarfulltrúar verða að stoppa þetta. Þó ekki væri nema af virðingu fyrir konunni sem skúrar skrifstofu borgarstjóra,“ segir Daníel.

„Þegar svona tillögur koma fram, að lækka laun eða þóknanir til æðstu stjórnenda, er viðkvæðið oft að þetta skipti svo litlu máli þegar horft er á heildina,“ segir Sanna. „Það er sagt að þetta sé aðeins brotabrot af veltu borgarinnar. Þess vegna er sjálftakan látin viðgangast og magnast. En þetta er fyrirsláttur. Ef sjálftakan hneykslar okkur eigum við að stöðva hana. Það mun koma í ljós á fundi borgarstjórnar hvaða borgarfulltrúar eru tilbúnir til þess að byrja að skrúfa ofan af þeirri sjálftöku sem hefur viðgengist hér of lengi.“

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing