Bandaríska leikkonan Tara Reid hefur gefið í skyn að ný American Pie mynd gæti verið væntanleg á næsta ári, næstum tuttugu árum eftir að fyrsta myndin kom út.
Reid, sem lék Vick Lathum í myndunum, segir að hún hafi nýlega hitt Jon Hurwitz og Hayden Schlossberg, leikstjóra myndanna, og að þeir hafi verið spenntir fyrir því að gera fimmtu myndina. Þá sagði hún að myndin gæti farið í framleiðslu í lok árs.
„Þessar myndir eru hluti af bandarískri menningu, þær eru klassík. Það er vitað um allan heim. Ég er mjög spennt fyrir því að vera mögulega að fara að taka upp nýja American Pie mynd á árinu,” sagði Reid við CinePOP.
„Ég hitti leikstjórana í teiti nýlega og sagði að við ættum að gera fimmtu myndina. Þeir svöruðu og sögðu að það myndi gerast, þeir ætli sér að gera aðra.”
Þrátt fyrir bjartsýni Reid eru ekki allir leikarar upprunalegu myndanna jafn vissir um endurkomu. Sean William Scott sem lék Steve Stifler í myndunum sagði á síðasta ári að það væri ólíklegt að kvikmyndaver myndu vilja framleiða myndina vegna lélegrar frammistöðu fjórðu myndarinnar á markaðinum.
Þrjár American Pie myndir komu út á árunum 1999 til 2003 og sú fjórða kom út árið 2012. Auk þeirra hafa verið gefnar út fleiri American Pie myndir sem tengjast söguheiminum en innihalda ekki upprunalega leikarahópinn.