Hrekkjavakan virðist vera að ná útbreiðslu á Íslandi. Íbúar í Vesturbænum í Reykjavík ætla að dreifa miðum í hús í hverfinu á næstu dögum og hvetja þannig íbúa til að merkja hús sín ef þeir vilja taka á móti nornum, draugum og öðrum óvættum í nammileit 31. október.
„Við höfum verið að fara út í Skerjafjörð síðustu ár. Nú eru börnin orðin það gömul að þau eiga vini í næstu götum. Við viljum virkja þetta í okkar hverfi, sjá hvort það sé áhugi,“ segir Ína Dögg Eyþórsdóttir, móðir í Vesturbænum og ein af nokkrum foreldrum sem vilja koma þessu á fót í hverfinu.
Þessum miða verður dreift í hús í Vesturbænum. Íbúar eru einnig hvattir til að setja ljós í gluggann.
Ína segir að sumir íbúar Skerjafjarðar leggi mikið á sig til að skreyta húsin en aðrir vilji ekki vera með og það sé í góðu lagi. Þau sem vilja taka á móti börnum í sælgætisleit í tilefni hrekkjavökunnar hafa sett kerti eða graskerslukt fyrir utan húsið og þá vita börnin að þau eru velkomin.
Sumir hafa gagnrýnt að bandarískar hefðir á borð við Valentínusardaginn og hrekkjavökuna ryðji sér rúms hér á landi. Ína lætur það ekki á sig fá. „Það eru alltaf einhverjir fýlupúkar. Af hverju má hafa ekki gaman, skiptir einhverju máli hvaðan hefðin kemur,“ spyr hún.
Hún hvetur íbúa Vesturbæjar til að taka þátt og hafa gaman. „Og endilega setja út ljós,“ segir Ína.