Auglýsing

Vill gera allar greiðslur til þingmanna opinberar: „Við höfum ekkert að fela“

Kaup og kjör þingmanna skjóta reglulega upp kollinum í umræðunni. Þingkona Bjartrar framtíðar vill að gera upplýsingar um allan kostnað sem þingmenn fá greiddan opinberan.

 

Brynhildur Pétursdóttir, þingkona Bjartrar framtíðar, vill að upplýsingar um laun og allar greiðslur til þingmanna verði gerðar opinberar og aðgengilegar fyrir almenning. „Við höfum ekkert að fela,“ sagði hún í ræðustól Alþingis í gær.

Brynhildur tók málið upp í lið sem kallast störf þingsins. Formleg tillaga hefur því ekki verið lögð fram. Hún sagði greinilegt að áhugi væri á þessum upplýsingum og að flestir þingmenn kannist við að hafa fengið fyrirspurnir frá fjölmiðlum kaup og kjör.

Hún vísaði í ræðu sinni í hneykslismál sem kom upp í Bretlandi.

Þá kom í ljós að þingmenn gátu, að því er virtist óáreitt, vaðið í opinbera sjóði og úr þessu varð skandall. Í framhaldinu var sett á fót stofnun undir breska þinginu sem heitir Independent Parliamentary Standards Authority. Þessi stofnun hefur meðal annars það hlutverk að upplýsa um laun og í raun allan starfskostnað sem þingmenn fá greiddan og eiga rétt á.

Hún sagðist velta fyrir sér hvort þingheimur ætti ekki að fara að dæmi Breta.

„Við þurfum ekkert að setja á fót sérstaka stofnun, en hvort við ættum ekki að tryggja að allar upplýsingar sem til falla vegna starfa okkar í þágu Alþingis séu uppi á borðum.

Það er ekki eins og við höfum eitthvað að fela hér en staðreyndin er sú að skortur á gagnsæi og óskýrleiki á þessu sviði er til þess fallinn að vekja upp spurningar og hvort sem þær eru á rökum reistar eða ekki þá grafa þær undan trausti.“

Myndband af ræðu Brynhildar má sjá hér fyrir neðan.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing