Þegar Borghildur Indriðadóttir byrjaði að kynna ljósmyndasýninguna og gjörninginn Demoncrazy byrjuðu undarlegir hlutir að gerast fyrir Facebook-síðu hennar. Vinalistinn hvarf ásamt öðru efni og henni fannst það svo óþægilegt að hún eyddi aðgangi sínum á Facebook.
Demoncrazy sýnir ungar berbrjósta konur standa við málverk, ljósmyndir og styttur af karlmönnum í opinberum rýmum og ögra jakkafataklæddri, miðaldra og karlkyns ímynd valdsins sem þær hafa alist upp við.
Sýningin opnaði 3. júní með gjörningi á Austurvelli þar sem ungar, berbrjósta konur gengu fylktu liði úr Alþingishúsinu yfir í Klúbb Listahátíðar í Hafnarhúsinu. Ætlunin var að streyma gjörningnum beint á Facebook en útsendingin var fljótlega tekin niður af samfélagsmiðlinum vegna brjóstanna.
Borghildur segir í samtali við Nútímann að það hafi verið leiðinlegt því hún hafi fengið mikil viðbrögð frá öðrum löndum og segir marga hafa viljað fylgjast með útsendingunni. „Það var samt gaman að sjá hvað það voru margir áhorfendur með símana á lofti á meðan á gjörningnum stóð,“ segir hún.
Borghildur hefur auglýst sýninguna og gjörninginn á Facebook-síðu sinni ogdeilt viðburði frá Listahátíð og opnu úr bæklingi Listahátíðar um sýninguna, til að vekja athygli á henni. Þar sem myndirnar eru allar af berbrjósta konum hafa þær verið teknar út af samfélagsmiðlum og Borghildur fengið viðvaranir vegna brota á viðmiðunarreglum Facebook.Hún segir myndirnar hafa verið teknar út fljótlega eftir að þær voru settar inn og að hið sama gildi um síðu Listahátíðar.
Fljótlega eftir að hún setti myndirnar inn á samfélagsmiðilinn tók hún eftir því að búið var að eyða öllum á vinalista hennar. Stuttu seinna voru athugasemdum og „lækum“ á myndum á síðunni hennar eytt, þó að þær tengdust ekki sýningunni. Það hafi verið eins og einhver hafi tekið yfir aðganginn hennar.
„Það er óþægilegt að hafa ekki stjórn á samfélagsmiðlum og geta ekki deilt listrænum viðburði að vild,“ segir Borghildur.
„Þetta er svo skrítið, ég veit eiginlega ekki hvað ég á að segja um þetta. Mér fannst eitthvað svo ruglað að Facebook væri að taka yfir aðganginn minn og hugsanlega gera eitthvað í mínu nafni þannig að ég eyddi aðgangnum mínum.“