Auglýsing

Vinkona Birnu birtir myndbönd í von um að þau hjálpi fólki að þekkja Birnu

Matthildur Soffía Jónsdóttir, vinkona Birnu Brjánsdóttur, hefur birt myndbönd í von um að þau hjálpi fólki að þekkja á Birnu. Matthildur birti myndböndin á Facebook en færsluna má sjá hér fyrir neðan.

Víðtæk leit stendur yfir að Birnu en síðast er vitað um ferðir hennar í miðborg Reykja­vík­ur um klukkan fimm aðfaranótt laugardags.

Samkvæmt nýjustu upplýsingum frá lögreglu sést Birna í eftirlitsmyndavélum ganga ein síns liðs austur Austurstræti, Bankastræti og Laugaveg að húsi númer 31 þar sem hún hverfur sjónum um klukkan 05.25 aðfaranótt laugardags. 

Lögreglan hefur dreift myndum af rauðum bíl sem sennilega er af gerðinni Kia Rio. Bifreiðinni var ekið vestur Laugaveg á móts við hús nr. 31, kl. 05.25 aðfararnótt laugardags.

Lögreglan biður ökumann rauðu bifreiðarinnar að hafa samband við lögreglu í síma 444 1109 sem allra fyrst.

Hér má sjá færsluna frá vinkonu Birnu

Það sem við vitum

  • Birna er tvítug, fædd árið 1996. Hún er 170 sentimetrar á hæð, 70 kíló og með sítt rauðleitt hár. Hún var klædd í svartar gallabuxur, ljósgráa peysu, svartan flísjakka með hettu og var í svörtum Dr. Martens-skóm þegar síðast sást til hennar.
  • Síðast er vitað um ferðir Birnu við skemmtistaðinn Húrra um klukkan fimm aðfaranótt laugardags.

  • Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu kom síðast merki frá farsíma Birnu á farsímasendi í Hafnarfirði. Leitað hefur verið að henni á svæðinu í kringum gömlu slökkvistöðina í Hafnarfirði þar sem rafhlaða símans virðist hafa tæmst.
  • Samkvæmt upplýsingum frá móður Birnu er ekki hægt að útiloka að símanum hafi verið stolið en Birna hætti að senda skilaboð um klukkan þrjú um nóttina. „[Hún] sést ganga ein upp Laugaveginn. Sem gæti breytt leitarfókusnum töluvert,“ segir móðir Birnu á Facebook.
  • Stofnuð hefur verið Facebook-síða tileinkuð leitinni. Á síðunni er meðal annars haldið utan um svæði þar sem fólk hefur þegar leitað.

Sigurlaug Hreinsdóttir, móðir Birnu, kallaði eftir allsherjarleit í fréttum Stöðvar 2 í kvöld. „Þetta er tvítug stelpa, hún er ekki í neinu rugli, hún er ekki að strjúka að heiman. Ég vil bara fá allsherjarleit. Ég vil að björgunarsveitir taki þátt í þessu og það sé leitað úti um allt að henni á meðan það er einhver von,“ sagði hún.

Lögreglan biður alla þá sem veitt geta upplýsingar um ferðir Birnu og hvar hún er niðurkomin að hafa samband við lögreglu í síma 444 1109.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing