Píratar eru stærsti flokkur landsins samkvæmt skoðanakönnunum Capacent og MMR. Það er ansi magnaður árangur enda er þingflokkurinn sá minnsti á Alþingi með þrjá þingmenn, þau Helga Hrafn Gunnarsson, Birgittu Jónsdóttur og Jón Þór Ólafsson.
Sjá einnig: Hér er miðinn sem plataði Sjálfstæðisflokkinn
Þetta mikla fylgi Pírata varð til þess að Róbert Marshall, þingmaður Bjartrar framtíðar, framdi ansi skemmtilegan vinnustaðahrekk á Alþingi á mánudag. Samkvæmt heimildum Nútímans setti hann miða á stórt borð í horni mötuneyti Alþingis, sem Sjálfstæðisflokkurinn situr jafnan við í hádeginu, sem á stóð: Frátekið fyrir Pírata (30%)
Nokkrir þingmenn skemmtu sér svo við að horfa á hvern sjálfstæðismanninn á fætur öðrum velja sér sæti á litlu borði við hlið stóra borðsins sem var autt nánast allt hádegið eða þangað Róbert sótti miðann.
Á meðal þeirra sem hurfu frá borðinu voru Unnur Brá Konráðsdóttir, Jón Gunnarsson, Guðlaugur Þór Þórðarson og varaþingmaðurinn Geir Jón Þórisson.