Vinnuveitendur blanda sér í einkalíf erlendra foreldra barna í leikskólum og í grunnskólum hér á landi.
Ef barn þarf af einhverjum ástæðum að vera heima eru dæmi um að vinnuveitendur erlendra foreldra hringi í leikskóla, skammist í leikskólastjórum og spyrjist fyrir um hvort barn sé raunverulega veikt. Þetta segir Anna Margrét Ólafsdóttir, leikskólastjóri á Nóaborg í Reykjavík.
Anna Margrét vakti athygli á málinu á Facebook-síðu sinni gær. Þar segist hún hafa þurft að senda börn heim vegna manneklu og að vinnuveitandi erlends foreldris hafu hringt í sig og skammast í sér út af þessari aðgerð.
„Eftir samtalið rifjaðist það upp fyrir mér að ég hef í gegnum árin fengið símtöl frá vinnuveitendum þegar það er skipulagsdagur, beðið um að sækja fyrr, þegar barn hefur slasast og ég hringt í foreldra,“ segir hún.
Það sem öll þessi símtöl eiga sameiginlegt er að foreldrarnir hafa verið af erlendum uppruna, aldrei hef ég fengið símtal varðandi íslenska foreldra.
Í samtali við Nútímann segist Anna ekki vera lenda í þessu í fyrsta skipti. Hún segir ótrúlegt hvað vinnuveitendur starfsmanna sem eru af erlendu bergi brotin leyfi sér mikið.
„Ég hef lent í þessu sjö sinnum á síðustu tíu árum. Að vinnuveitendur erlendra foreldra hringi í mig til að fá upplýsingar um hitt og þetta í einkalífi starfsmanna sinna,“ segir Anna Margrét.
Hún segist vera miður sín yfir framkomu og virðingaleysi sumra vinnuveitenda gagnvart erlendu starfsfólki sínu — þetta sé þessum fyrirtækjum öllum til háborinnar skammar.
Anna Margrét segir að framkoma þessara vinnuveitenda vera uppfulla af dónaskap og fordómum. Hún segir ótrúlegt að fólk leyfi sér að blanda sér inn í einkalíf starfsmanna sinna á þeim forsendum að þau séu ekki íslensk. Þá segir hún málin á Nóaborg ekki einsdæmi. „Ég heyrt af svipuðum málum í öðrum leikskólum og grunnskólum,“ segir hún.
„Síðast í gær fékk ég símtal þar sem mjög dónalegur vinnuveitandi erlends foreldris hjá mér skammar mig fyrir að valda því að starfmaður hennar þurfi að fara heim að sinna barninu sínu. Vinnuveitandinn gaf þessum starfsmanni sínum ekki leyfi til þess að sækja barnið sitt og því þurfti hann að fá annan til að sækja barnið.“
Önnur dæmi sem Anna nefnir eru að vinnuveitandur hringi til að spyrjast fyrir um hvort að barn sé raunverulega veikt og hvort barn sé í alvöru slasað. Anna spyr því sig hvers vegna eingöngu vinnuveitendur erlendra starfmanna leyfi sér þetta og veltir fyrir sér hvað yrði gert af þetta væru vinnuveitendur íslenskra foreldra.
Anna Margrét bendir á að þetta séu allt upplýsingar sem eru vinnuveitendum óviðkomandi og komi þeim ekki við. „Ég svara auðvitað ekki þessum spurningum. Ég má það ekki,“ segir hún.
Loks segir hún augljóst að óttinn við að missa vinnuna sé mun meiri hjá erlendu foreldrum en hjá þeim íslensku. „Ég tek eftir því að ég fæ mun oftar til mín börn erlendra foreldra sem eru lasin eða slöpp sem vegna þess að foreldrarnir eru hræddir við að biðja um frí. Kannski vegna þess að þeir vita að vinnuveitendur sínir eru tilbúnir að hringja og spyrjast fyrir,“ segir hún
Hún segir að mögulega spili þarna inn í minna tengslanet hjá erlendum foreldrum og að þeir hafi færri eða jafnvel engin úrræði.