Sænska Youtube-stjarnan Felix Kjellberg, sem kallar sig PewDiePie, kom til Íslands um síðustu helgi ásamt Marziu Bisognin, kærustunni sinni. Í gær birti hann myndband frá ferðalaginu sem er þegar komið upp í tæplega þrjár milljónir áhorf. Horfðu á myndbandið hér fyrir ofan.
Parið hélt upp á sex ára sambands og fór nokkuð hefðbundinn túristahring sem þau sýna frá í myndbandinu. Þau voru augljóslega afar ánægð með ferðina og myndbandið endar í Bláa lóninu þar sem hann segir ferðina hafa verið ótrúlega. „Ég elska Ísland — það er ótrúlegt,“ sagði hann.
PewDiePie er vinsælasta Youtube-stjarna heims og um leið sú umdeildasta. Hann komst í heimsfréttirnar í febrúar þegar Maker Studios, dótturfélag Disney-samsteypunnar, losaði hann undan samningi eftir að hann birti myndbönd sem innihélt grín á kostnað gyðinga.
PewDiePie hafði birt níu slík myndbönd frá því ágúst en í einu myndbandanna sagði maður klæddur eins og Jesús að Hitler hafi ekki gert neitt rangt. Þá greiddi hann tveimur mönnum laun fyrir að ganga um með skilti sem á stóð: „Death to All Jews“.
Sjálfur hafnaði PewDiePie því að styðja nokkurs konar hatursorðræðu. „Ég skil að þessir brandarar móðguðu, þó það hafi ekki verið takmarkið,“ sagði hann í færslu á Tumblr-síðu sinni.
Málin hafa ekki haft mikil áhrif á áskrifendafjölda PewDiePie á Youtube sem eru fleiri 57 milljónir. Samkvæmt Forbes þénaði hann um 15 milljónir dala í fyrra eða um einn og hálfan milljarð íslenskra króna.