„Ég man eftir því þegar ég fór út í þetta þá spurði fólk mig hvernig mér dytti þetta í hug – að fara í pólitík væri eins og að fara í ljónagryfjuna. Ég myndi aldrei fá vinnu eftir þetta. Ég ákvað að fara þarna inn og vera ég sjálf og vera ánægð með það sem ég segi – ekki bara reyna að gera öllum til geðs vegna þess að ég ætla ekki að vera í þessu að eilífu og ég vill geta haldið í sjálfa mig. Það þýðir að maður segir stundum það sem fólk líkar ekki og maður þarf bara að díla við það,“ segir Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar og sú sem spekúlantar segja að sé ein helsta ástæða þess að stjórnmálaflokkurinn hefur sótt í sig veðrið að undanförnu og rúmlega það.
Kristrún var gestur „Spjallsins með Frosta Logasyni“ á hlaðvarpsveitunni Brotkast en þar var hún í opinskáu viðtalið um lífið sitt í pólitík og hvað býr að drifkrafti hennar þegar það kemur að stjórn landsins. Hún segist í viðtalinu vilja eyða mýtunni um að vinstrimenn geti ekki farið með fjármál ríkissins og vill fá heiðarlega umræðu um hvernig skattar eigi að vera hagstjórnartæki.
Þá segir Kristrún að stjórnmálamenn eigi ekki geta fríað sig af ábyrgð verðbólgu og hárra vaxta. Hún ræðir stefnu sína og Samfylkingarinnar og hvað hún vilji gera komist flokkurinn í ríkisstjórn eftir næstu kosningar. Hún ræðir útlendingastefnuna sem mörg flokkssystkyni hennar hafa verið ósátt við og talar líka um þá hörðu stefnu sem flokksbróðir hennar Keir Starmer hefur tekið gegn upplýsingaóreiðu og hatursorðræðu í Bretlandi. Þá ræðir hún líka hugsanlega aðkomu Dags B Eggertssonar að landsmálum og ýmislegt fleira. Ekki missa af þessu frábæra viðtali.
„Ég kom út í þetta því mig langaði að gera ákveðna hluti í pólitík en ekki af því mig langaði til að vera eitthvað skiluru. Ég fór ekki í pólitík heldur til að vera hérna eða fá að heita eitthvað heldur til þess að koma ákveðnum hlutum í framkvæmd. Ég kem náttúrulega inn með þennan efnahagsmálabakgrunn en hef auðvitað brennandi áhuga á fullt af öðrum málum eins og velferðarmálum og öðrum þáttum í stjórn ríkisins,“ segir Kristrún í viðtalinu sem Nútíminn birtir hér stutt brot úr með góðfúslegu leyfi Brotkasts.
Ef þú vilt hlusta og horfa á þetta viðtal ásamt fjölda annarra hlaðvarpsþátta á borð við Harmageddon þá getur þú gert það með áskrift að veitunni með því að smella hér.