Tveir af hverjum þremur Íslendingum er með aðgang að Netflix á heimili sínu. Þetta kemur fram í nýrri könnun MMR. Mikil aukning hefu verið á vinsældum Netflix hér á landi. Nú eru um 67 prósent með aðgang að veitunni sem er 8 prósentustiga hækkun á einu ári. Fyrir tveimur árum var um þriðjungur landsmanna með aðgang.
Netflix er áberandi vinsælast hjá ungu fólki en um 90 prósent Íslendinga á aldrinum 18-29 ára er með aðgang. Til samanburðar eru 24 prósent fólks á eftirlaunaaldri með aðgang að Netflix.
Ekki var mikill munur á svörum eftir kyni en talsvert fleiri hafa aðgang að Netflix á höfuðborgarsvæðinu en landsbyggðinni.
Aðgengi að Netflix vex með auknum tekjum. Líkur á að einhver heimilismanna svarenda væri með áskrift að Netflix jókst einnig með aukinni menntun.
Stuðningsfólk Viðreisnar og Pírata var líklegast til þess að segja að einhver á heimili sínu væri með áskrift þegar litið var til stjórnmálaskoðana. Stuðningsfólk Framsóknarflokksins er ólíklegast til að vera með aðgang en aðeins rúmur helmingur þeirra sagðist vera með áskrift.