Íslenska flugfélagið WOW Air er í neðsta sæti á lista AirHelp yfir bestu flugfélög í heimi. AirHelp sendir árlega frá sér slíkan lista en þar eru flugfélög dæmd út frá stundvísi, gæðum þjónustu og viðbrögðum við kvörtunum.
WOW Air er sem fyrr segir í neðsta sætinu eða því 72. en Icelandair nær 45. sæti á listanum. WOW Air og Icelandair fá mjög svipaðar einkunnir fyrir stundvísi og gæði í þjónustu en Icelandair er með mun betri einkunn í viðbrögðum við kvörtunum.
Í stundvísi fær Icelandair 7,8 í einkunn en WOW 7,5. Í gæðum þjónustu sem byggja meðal annars á athugasemdum viðskiptavina fær Icelandair 6,3 í einkunn en WOW fær 6,0.
WOW Air er þó með mjög slæma einkunn í viðbrögðum við kvörtunum en þar fær flugfélagið einungis 1,7 í einkunn. Einu flugfélögin sem eru með verri einkunn í þeim flokki eru Royal Jordanian Airlines og Easyjet. Icelandair fær 8 í einkunn fyrir viðbrögð við kvörtunum.
Icelandair fær 7,36 í heildareinkunn en WOW fær 5,04. Bestu flugfélög í heiminum í dag samkvæmt listanum eru Qatar Airways sem fær 9,08 í einkunn, Lufthansa sem fær 8,57 og Etihad Airways sem hlaut 8,3.
Hér má lesa um hvernig AirHelp kemst að niðustöðum sínum.