Salvar Þór Sigurðarson sagði á dögunum upp starfi sínu í London og flutti heim til Íslands til þess að geta eytt tíma með fjölskyldu sinni. Hann segir að starfsframi skipti nákvæmlega engu máli ef maður hefur ekki tíma fyrir fjölskyldu og þá sem manni þyki vænt um.
Salvar segir í samtali við Nútímann að hann hafi alltaf verið að leitast eftir því að klifra hærra og hærra, finna meiri ábyrgð og starfsframa. Til þess hafi hann leitað út fyrir landsteinanna.
Hann flutti ásamt Huldu Gísladóttur, eiginkonu sinni til London fyrir tveimur árum og hóf störf hjá sprotafyrirtækinu Vortexa sem notar gervigreind til þess að fylgjast með olíuskipum. Salvar var með fyrirtækinu frá byrjun og fylgdist með því vaxa. Í dag er fyrirtækið með um 20 starfsmenn og gengur vel.
Salvar og Hulda bjuggu í tveggja tíma fjarlægð frá skrifstofu hans. Hann þurfti því að eyða þremur til fjórum tímum á dag í lest auk þess sem að vinnudagurinn var 10 til 11 tíma langur.
„Þetta var mjög mikið ævintýri. Eftir að við eignuðumst strák í lok ársins 2016 þá byrjaði maður að velta því smá fyrir sér hvernig þetta ætti að ganga en ég hugsaði alltaf bara að þetta myndi reddast og það er hugsun sem maður getur gengið ansi lengi á,” segir Salvar
„Konan var í raun bara ein heima með strákinn frá fæðingu og þangað til að hann var orðinn rúmlega eins árs. Þetta gekk svosem alveg en ég var bara að sofa, vakna og fara í vinnuna. Hugsunin var alltaf fyrst og fremst að klára verkefnið og að það mætti ekki gefast upp.”
Fjölskyldan flutti heim
Um síðustu áramót flutti Hulda heim til Íslands með strákinn þeirra og þá segir hann að hann hafi virkilega farið að hugsa leiðir til þess að láta þetta ganga. Hann hafi fljótlega áttað sig á því að það yrði gífurlega erfitt.
„Ég reyndi að láta þetta ganga með því að vera duglegur að koma heim um helgar en í hvert einasta skipti sem ég þurfti að kveðja þá áttaði ég mig á því að þetta væri ekki að ganga. Það var eitthvað sem togaði í mig og sagði að þetta ætti ekki að vera svona, vinnan er ekki svona mikils virði,” segir hann.
Eini tíminn sem þú hefur er litaður af því að það eru x klukkutímar í að þú farir aftur frá þeim. Þetta varð erfiðara og erfiðara og á ákveðnum tímapunkti hugsaði ég hvað er ég að gera, hvaða rugl er þetta?
Salvar var farinn að missa úr miklu í uppeldi sonar síns. Hann segist hafa verið farinn að missa af nýjum orðum og hlutum sem að hann vissi á endanum að væru mun mikilvægari en einhver vinna. Fyrir tveimur mánuðum hafi hann ákveðið að þetta gengi ekki lengur og tilkynnti vinnufélögum sínum að hann ætlaði sér að yfirgefa fyrirtækið.
„Ég hjálpaði þeim að finna arftaka og svona. Þeir vildu hafa mig áfram en það var skilningur þó svo að menn hafi verið leiðir. Vinnan sjálf var mjög skemmtileg og þetta var ákveðinn draumur en þú ert í ákveðnu hlutverki sem þú þarft að helga þig alveg. Ég áttaði mig á því að ég vildi frekar kúpla mig út og hugsa um fjölskylduna.”
Betra vinnuumhverfi á Íslandi
Salvar er kominn með vinnu hjá Marel hér á Íslandi og segist hlakka mjög til að komast aftur í skandinavískt vinnuumhverfi. Í London snúist lífið alltof mikið um vinnu en Íslendingar geri sér grein fyrir því að fólk eigi sér líf utan hennar.
„Eiginlega öll fyrirtæki á Íslandi eru mun betri en fyrirtæki í London hvað varðar vinnutíma og svo var auðvitað mikill ferðatími sem bættist við hjá mér. Þetta var ekki erfið ákvörðun þannig séð, um leið og ég tók hana þá var þetta allt skýrt. Þegar ég fór út hugsaði ég að ég væri að yfirgefa leiðinlega Ísland og fara út í ævintýraheiminn en núna er ég mjög sáttur að vera að snúa heim til Íslands með sitt norræna velferðarmódel sem gerir ráð fyrir því að fólk eigi sér líf.”
Vinnualki á batavegi
Í stöðuuppfærslu á Facebook síðu sinni segir Salvar að það sé rosalega auðvelt að detta inn í þá ranghugmynd að vinnuframi skipti öllu en að það sé bull. Hann segir að hann sé feginn að hafa áttað sig á því og sé nú vinnualki á batavegi.
„Ég gæti ekki verið hamingjusamari með að vera kominn heim til yndislegu yndislegu fjölskyldu minnar, vina og Íslands. Hulda hefur lagt ólýsanlega mikið á sig síðustu tvö ár, verandi nánast einstæð móðir með lítinn og yndislegan Seif án stuðningsnets í Bretlandi, og ég er svo þakklátur. Ég á bestu fjölskyldu í heimi. Nú get ég loksins séð hana meira.”