Gyða Lóa Ólafsdóttir, yfirmaður innblaðsins á Fréttablaðinu, sagði upp í morgun. Mikil ólga er á ritstjórninni eftir að yfirmanni ljósmyndadeildar fyrirtækisins var sagt upp störfum. Hann hafði verið í leyfi frá störfum um margra mánaða skeið eftir að hafa kvartað undan einelti Kristínar Þorsteinsdóttur, aðalritstjóra fyrirtækisins.
Sjá einnig: Þrúgandi andrúmsloft hjá 365, bakvið tjöldin í stærsta fjölmiðlafyrirtæki landsins
Gyða bætist í hóp yfirmanna á ritstjórn 365 sem eru á uppsagnarfresti. Viktoría Hermannsdóttir, yfirmaður helgarblaðs Fréttablaðsins sagði upp í gær og fyrir höfðu Fanney Birna Jónsdóttir aðstoðarritstjóri og Óli Kr. Ármannsson, vaktstjóri og leiðarahöfundur, sagt upp.
Þá var Pjetri Sigurðssyni, yfirmanni ljósmyndadeildar 365, sagt upp á föstudag. Kjarninn hefur heimildir fyrir því að fleiri íhugi uppsögn.
Kristín Þorsteinsdóttir yfirritstjóri og Ingibjörg Pálmadóttir, aðaleigandi 365, héldu fund með starfsfólki í gær. Heimildir Nútímans herma að á fundinum hafi komið fram að til standi að innleiða einhvers konar ferla sem eiga að koma í veg fyrir að verklag við uppsögn Pjeturs endurtaki sig.
Starfsmenn 365 sendu frá sér yfirlýsingu á þriðjudag þar sem yfirstjórn fyrirtækisins var harðlega gagnrýnd fyrir hvernig staðið var að uppsögn Pjeturs. Hann hefur þriggja áratuga reynslu sem blaðaljósmyndari — þar af þrettán ára starfsferil hjá Fréttablaðinu og Vísi. Í yfirlýsingu starfsmanna kom fram að hann eigi að baki farsælan feril og að hann hafi reynst góður samstarfsmaður.
Yfirlýsing starfsmanna var afdráttarlaus. Þar var uppsögn Pjeturs mótmælt harðlega ásamt því að „óásættanleg vinnubrögð“ aðalritstjóra og yfirstjórnar í aðdraganda uppsagnar hans og við kynningu á henni til samstarfsmanna var hörmuð.
Við beinum því til stjórnar og stjórnenda 365 að tryggja að slík framganga, sem grefur undan faglegum grunni og trúverðugleika fréttastofunnar, geti ekki endurtekið sig.
Loks telja starfsmenn að öll meðferð málsins hafi skaðað alvarlega það traust sem þeir segja að verði að ríkja innan ritstjórnarinnar.
Blaðamaðurinn Jón Hákon Halldórsson sendi yfirlýsinguna fyrir hönd starfsmanna Fréttablaðsins og Vísis. Yfirlýsingin var samþykkt einróma á fundi starfsmanna á mánudagskvöld. Samkvæmt heimildum Nútímans var hann kallaður á teppið hjá helstu stjórnendum 365 í dag.
Ingibjörg Pálmadóttir, stjórnarformaður og aðaleigandi 365, sendi starfsmönnum bréf síðdegis á þriðjudag þar sem hún sagði 365 eins og önnur fyrirtæki standa oft frammi fyrir því að þurfa að segja upp starfsmönnum. Kjarninn birtir bréfið.
„Að baki því kunna að liggja ýmsar ástæður hverju sinni. Í tilfelli Pjeturs var uppi faglegur ágreiningur milli undirmanns og yfirmanns, sem endaði með uppsögn,“ sagði hún.
„Slíkt gerist því miður í öllum fyrirtækjum hvar sem er í heiminum og er alltaf erfitt. Eigendur og yfirstjórn 365 hafa aðeins eitt að markmiði að standa að vandaðri fjölmiðlum og afþreyingu og reka gott fyrirtæki.“
Ingibjörg sagði mikilvægt starfsmenn standi saman sem ein liðsheild, tali saman og geri góða fréttastofu og fyrirtækið enn betra. „Rétt er að fram komi vegna umfjöllunar um uppsögn Fanneyjar Birnu Jónsdóttur, aðstoðarritstjóra Fréttablaðsins, að hún sagði sjálf upp störfum 30. júní sl. Ástæður uppsagnarinnar voru persónulegs eðlis,“ sagði hún.
Að lokum vildi hún taka fram að 365 sé fjölskyldufyrirtæki. „Von mín er að við stöndum saman sem ein fjölskylda.“