Trúfélagið Zuism hefur lagt fram lóðarumsókn til Reykjavíkurborgar. Með umsókninni fylgja teikningar af fyrirhuguðu musteri sem Zúistar vilja byggja í nálægð við miðborg Reykjavíkur. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef félagsins.
Þar segir að Zuism sé nú eitt stærsta trúfélag Íslands, með yfir tvö þúsund meðlimi. „Félagið hefur vaxið mikið á síðustu 2-3 árum og þörfin fyrir húsnæði undir bæði starfsemi og athafnir orðin aðkallandi. Mikilvægt er að félagið hafi gott heimili til að geta haldið áfram að vaxa og dafna sem og sinnt þeim mikla fjölda meðlima sem er nú þegar í félaginu,“ segir á vef félagsins.
Samkvæmt teikningum verður byggingin á tveimur hæðum ásamt hofi ofan á annari hæð. Stór stigi mun vera alla leiðina frá jörðu upp að hofinu. „Hofið er helgasti staður Zúista og þar geta farið fram athafnir svo sem giftingar, skírnir og tilbiðjanir.“
Stjórn Zuism vinnur nú með verkfræðingum, byggingarverktökum og hönnuðum til að fá sem nákvæmasta kostnaðaráætlun og hönnun að byggingunni að því er fram kemur í tilkynningunni.