Auglýsing

Ein með öllu í einu: Fjölheimaflipp í fókus

Everything Everywhere All At Once er ein stórundarlega einstök tegund af bíómynd. Það fer ekki á milli mála að þessi metnaðarfulla litla gegnsúra dramakómedía hefur vakið gríðarlega athygli um heim allan. Myndin hlaut 11 tilnefningar til Óskarsverðlauna, meðal annars í flokki bestu kvikmyndar, bestu leikstjórnar og fyrir besta frumsamda handrit.

Með aðalhlutverkin fara Michelle Yeoh, Ke Huy Quan, Stephanie Hsu, Jamie Lee Curtis og James Hong. Í myndinni er sagt frá kínverskum innflytjanda í Bandaríkjunum, Evelyn Wong, sem þeysist inn í klikkað ævintýri þar sem hún er ein fær um að bjarga heiminum með því að kanna aðra alheima sem tengjast lífum sem hún gæti hafa lifað.

„[Everything Everywhere All at Once] er eins og andstæðan við hefðbundna ‘Óskarsmynd’ en það er svo margt og mikið til að grandskoða við þessa fjölheimaperlu. Einnig er svokallaða ‘mainstream’ gildi hennar tekið til umræðu, þó óneitanlega sé eitthvað fyrir alla að finna í þessari veislu.

Þetta er ‘ein með öllu’ mynd, en hvers vegna?“

Svo segir í lýsingu þáttar í nýjasta innslagi bíóhlaðvarpsins Poppkast með Nönnu Guðlaugardóttur og Tómasi Valgeirssyni, en að sinni er þessi flippaða og margverðlaunaða fjölheimamynd rædd og skoðuð, út frá þemu, tilurð og tilfinningagildi og þá á persónulegu nótunum.

Þáttinn má nálgast hér að neðan í gegnum hlekk frá Spotify:

Poppkast hóf göngu sína í vetur, en þar ræða þau Nanna og Tómas alls kyns kvikmyndatengd málefni út og inn. Á meðal umfjöllunarefnis má nefna ítarlegar greiningar á kvikmyndunum The Matrix Resurrections, Avatar: The Way of Water, Babylon og sjónvarpsþættina Black Mirror.

Þættirnir eru aðgengilegir á helstu hlaðvarpsveitum, á meðal þeirra eru Spotify, Apple Podcasts, Google Podcasts, Stitcher ofl.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing