Auglýsing

„Fokking Babylon“

Glamúr, draumar og groddaralegar martraðarhliðar skemmtibransans á tímamótum er í brennidepli í þriggja tíma stórmynd sem hefur reynst vægast sagt umdeild, mögulega misskilin og furðu lítt séð. Af mörgum fyrirlitin.

Hvað er það sem mörgum þykir svona hryllilega fráfælandi við stórmyndina Babylon og af hverju er hún svona fjarri góðu gamni á komandi Óskarshátíðinni í ár?*

Kvikmyndin er sú nýjasta úr smiðju kvikmyndagerðarmannsins Damien Chazelle (Whiplash, La La Land) og segir sögu um gríðarlegan metnað og ofboðslegt óhóf í Hollywood fyrir tæpri öld, þegar þöglu myndirnar voru á undanhaldi og talmyndirnar hófu innreið sína. Í þessari sögu – sem listilega blandar saman staðreyndum og skáldskap, fáum við að sjá hvernig stjörnurnar sem birtast okkur á hvíta tjaldinu eiga oftar en ekki að baki blóð, svita og tár – brostna drauma og ótrúlega heppni.

Með helstu hlutverkin fara þau Diego Calva, Margot Robbie og Brad Pitt ásamt Jean Smart, Jovan Adepo, Li Jun Li og Eric Roberts.

*Á dögunum hlaut myndin þrjár tilnefningar til Óskarsverðlauna, fyrir tónlist, sviðs- og listræna hönnun og búningahönnun.

Poppkúltúrs-cast’ið Poppkast hóf göngu sína í vetur, en þar ræða þau Nanna Guðlaugardóttir kvikmyndafræðingur og Tómas Valgeirsson bíórýnir alls kyns kvikmyndatengd málefni út og inn. Á meðal umfjöllunarefnis má nefna ítarlegar greiningar á kvikmyndunum The Matrix Resurrections, Avatar: The Way of Water og sjónvarpsþættina Black Mirror.

Í nýjum þætti Poppkasts er Babylon í eldheitu sviðsljósinu og krufin til mergjar á rúmum klukkutíma. Þetta segir í lýsingu þáttar:

Allt það sem Once Upon a Time in Hollywood var ekki og miklu, miklu meira. Þetta er Boogie Nights á öðrum tímum og meira dópuð hundlöngu stúderingar Scorsese á siðleysingjum. Hvað í skollanum er þessi mynd og hvernig varð Babylon til?

Það er margt um þessa útrásarmynd frá Damian Chazelle að segja, og þó hún líti við fyrstu sín út fyrir að vera þessi ofurslípaða stjörnuprýdda og dæmigerða verðlaunabeita, reynist strax frá fyrstu mínútum vera sjóðheitt efni í rjúkandi költara.

Skemmst er að segja frá því að Nanna og Tómas skoða þessa sósuðu bransaveislu í þaula; hvort hún sé sjálfumglöð eða snilld, eða hvort tveggja, og hvað það er sem brennur Chazelle á hjarta með þessari hlunkamynd.

Þetta er fokking Babylon.

 

 

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing