Rannsóknir seinustu ár hafa sýnt fram á það að kostir við að dýfa sér stöku sinnum í kalda pottinn getur haft jákvæð áhrif fyrir bæði líkama og sál.
Síðustu ár hefur orðið veruleg aukning á notkun kalda vatnsins til heilsusamlegri lífsstíls. Margir eru farnir að leggja stund á sjósund hérlendis og hafa sundlaugar landsins flestar bætt við sig köldum pottum eða körum. Aukin vitundarvakning hefur átt sér stað um þá kosti sem kalda vatnið getur haft á líkamlegu og andlegu hliðina. Þeir sem stunda þetta reglulega segja iðulega frá því hversu mikinn mun þeir finna á heilsunni. Rannsóknir hafa sýnt fram á að kalt vatn getur haft mjög góð áhrif á líkamann og getur styrkt ónæmiskerfið til muna. Auk þess getur kalda vatnið dregið úr bólgum, minnkað eymsli í vöðvum, bætt svefn, lækkað blóðþrýsting og dregið úr fótaeirð. Það tekur hins vegar tíma að byggja upp þol og því ætti maður að byrja á 20-40 sekúndum ofan í vatninu og vinna sig upp, um tvisvar til þrisvar sinnum í viku. Æskilegt er að ráðfæra sig við lækni áður og ekki stunda þetta ein/n heldur með félaga. Einnig kjósa margir að fara í sjósund og eru til hópar sem hittast í Nauthólsvík, synda saman og hlýja sér svo í pottinum eftir sundið. Það er mikilvægt að líkaminn nái að hita sig upp á ný og því er gott að fara í heitan pott eða heita sturtu til þess að fá hita í kroppinn á ný.
Wim Hof meðferðin
Wim Hof trúir því að hægt sé að ná stjórn á líkama sínum með réttri öndun og öndunaraðferðum sem gera þér kleift að þola kalt vatn í þrjár til átta mínútur.
Wim Hof meðferðin var búin til af hollenskum öfga-íþróttamanni að nafni Wim Hof en hann er einnig þekktur sem „The Iceman“ eða Ísmaðurinn. Wim Hof trúir því að hægt sé að ná stjórn á líkama sínum með réttri öndun og öndunaraðferðum sem gera þér kleift að þola kalt vatn í þrjár til átta mínútur. Meðferðin byggist á þremur lykilatriðum; öndun, kuldameðferð og skuldbindingu. Þeir sem stunda Wim Hof meðferðina hafa greint frá jákvæðum árangri og aukinni vellíðan, sterkara ónæmiskerfi og betri svefni. Hérlendis má finna námskeið í Wim Hof kuldameðferðinni og öndunaræfingum hjá ANDRI ICELAND en á vefsíðunni www.andriiceland.is er einnig að finna einkatíma, hóptíma og mismunandi meðferðir ef þig langar til að prófa öðruvísi heilsurækt.
Upphaflega birt í Vikunni