Súper einföld og góð uppskrift af heimalöguðum sætkartöflu frönskum sem eru góðar með öllum mat. Til þess að fá þær stökkar að utan og mjúkar að innan er lykilatriði að setja þær í kalt vatn.
Hráefni:
- 2 stórar sætar kartöflur
- 2 msk ólívuolía
- 1/2 tsk sjávarsalt
- 1/4 tsk svartur pipar
- 1/4 tsk hvítlauksduft
- 1/4 tsk paprika eða chilliduft
- 1 msk hveiti
Aðferð:
1. Afhýðið kartöflurnar og skerið í jafnar ræmur, rúmlega 1 cm á þykkt. Setjið þær í skál með ísköldu vatni (gott að setja klaka með en ekki nauðsynlegt) og látið þær standa í 30 mín í vatninu. Þetta dregur úr sterkjunni og vökvanum í kartöflunum og gerir þær stökkari að utan í elduninni.
2. Þerrið kartöflurnar. Setjið kryddin og hveitið í poka með kartöflunum og hristið pokann þannig að kryddblandan húði kartöflurnar vel.
3. Setjið bökunarpappír á ofnplötu, dreifið frönskunum jafnt á plötuna og bakið við 200 gráður í um 15 mín. Þá er gott að taka plötuna út, snúa frönskunum við og baka svo aftur í um 10 mín eða þar til þær eru orðnar stökkar og gylltar.