Umsjón/ Maríanna Björk Ásmundsdóttir
Myndir/ Rakel Rún Garðarsdóttir
Úr Gestgjafanum
Sjá einnig: Víntrend 2023: „Fjölbreytt þrúga sem vínáhugafólk ætti að prófa á þessu ári“
Melih Kayir vínsérfræðingur á veitingastaðnum TIDES, The Reykjavík EDITION segir okkur hvað er framundan á nýju ári í vínheiminum en hann hefur orðið var við miklar breytingar á síðustu árum meðfram auknum áhuga og þekkingu fólks á vínum. Melih er spenntur fyrir nýju ári, hann sér fram á aukna áherslu á lífræn vín og náttúruvín en sjálfur er hann hrifinn af Franciacorta freyðivíninu sem hann lýsir sem hinu ítalska kampavíni.
Hvaða stefnur og straumar voru ríkjandi í vínheiminum árið 2022?
Áður fyrr þurfti flaskan aðeins að segja til um bragðnótur vínsins, þeir tímar eru liðnir að mati Melih því á síðasta ári hafa kröfur neytandans aukist. Offramboð af ódýrum og glaðlegum flöskum með flottum miðum en engri sögu hefur leitt til þess að fólk velur sér ekki lengur vín út frá útliti, heldur leitar það eftir víni með sögu. Aukin meðvitund neytenda er greinileg að sögn Melih. „Ég tel að neytendur haldi áfram að krefjast aukinnar sjálfbærni í vínframleiðslu bæði út frá samfélagslegu, umhverfislegu og efnahagslegu sjónarmiði.“ Lífræn vín og náttúruvín hafa vakið áhuga í vínheiminum á síðustu misserum. „Áhuginn á náttúruvíni, hvaðan það kemur og hvernig þú getur nálgast það virðist vera að aukast og mun halda áfram að aukast í vinsældum að mínu mati.“ Þá hefur Þúsaldarkynslóðin (fólk fætt á árunum 1980–1995) einnig haft áhrif á áfengismarkaðinn í heild sinni að sögn Melih en sú kynslóð setur heilsuna og vellíðan í forgang, þau leita oft í minna áfengismagn og velja lífræn vín og náttúruvín. „Ég trúi því að lífræn vín og náttúruvín verði aðalvíntrendið á næsta ári.“
Hvað er framundan á nýju ári? Eru til dæmis einhverjar ákveðnar þrúgur eða svæði að ná meiri vinsældum núna? Heimsfaraldurinn breytti markaðnum á Íslandi, sala á netinu jókst til muna enda margir veitingastaðir, hótel og barir lokaðir eða með takmarkað vínúrval í boði sem leiddi til þess að fólk fór að kanna vínúrvalið á netinu og panta þaðan. „Ég tel að þetta trend haldi áfram að vaxa í vinsældum á nýju ári og ég vænti þess að lífræn vín verði heitasta trendið í vínheiminum árið 2023,“ spáir Melih.
Er eitthvað nýtt í vínheiminum sem þú ert persónulega spenntur fyrir á nýju ári?
„Ég er mjög spenntur fyrir vexti freyðivínsins Franciacorta, það er ekki alveg nýtt en það kom fyrst fram á sjónarsviðið árið 2020.“ Franciacorta heitir eftir sögulegu landsvæði í Lombardy-héraði á Norður-Ítalíu. Svæðið dregur nafn sitt frá Curtes Francae sem vísar til þess þegar svæðið var skattfrjálst á 13. öldinni og var umkringt 19 þorpum í Brescia-héraði. „Franciacorta er í raun hið ítalska kampavín sem er unnið með sömu aðferð. Franciacorta er aðeins hægt að framleiða í þessu héraði með sérstökum vínberjum.“ Melih segir Franciacorta hafa svipaða blöndu og kampavín, það er blanda af Chardonnay og Pinot Noir-þrúgum eða Pinot Nero á ítölsku, einnig smá Pinot Blanco. „Franciacorta fer betur í maga en önnur freyðivín sem eru gerð í kaldara loftslagi, það hefur ferskleika en ekki of mikla sýru sem fer beint í magann.“
Hvaða vínum mælir þú með fyrir þá sem eru nýlega farnir að drekka vín og vilja prófa sig áfram?
„Það er aldrei of seint að byrja,“ segir Melih með bros á vör. „Byrjendur hafa litla þekkingu en eru oftast mun opnari fyrir vínum og þrúgum og myndi ég því mæla með að þeir lesi sér til meðfram vínsmakki. Á þann hátt lærir fólk mun hraðar og öðlast skilning á vínmenningunni. Ég myndi segja að klassísk vín væru tilvalin til þess að byrja á, t.d. Sauvignon Blanc-hvítvín frá Nýja Sjálandi eða kröftugt Cabernet Sauvignon-rauðvín,“ mælir Melih með.
Hvaða vínum mælir þú með fyrir þá sem þekkja til vínheimsins en vilja uppgötva eitthvað nýtt?
„Lífræn vín enn og aftur, mér líður eins og þetta trend muni halda áfram að vaxa og ég sé ekki fyrir endann á því. Vínsérfræðingar ættu allir að vera með ný trend á hreinu og prófa vínin áður en þau eru boðin gestum svo hægt sé að svara spurningum og koma með tillögur,“ segir Melih.
Hvað er alltaf klassískt í vínheiminum?
„Til að vera alveg hreinskilin þá veit ég ekki afhverju en í hvert skipti sem einhver segir klassík kemur Sauvignon Blanc-hvítvín frá Nýja Sjálandi fyrst upp í hugann. Það verða allir að prófa,” segir Melih í lokin.