Mikil gerjun hefur átt sér stað í vínheiminum undanfarið og það verður spennandi að sjá hvað árið 2023 ber í skauti sér. Við fengum fjóra vínsérfræðinga til að spá í spilin fyrir okkur og segja okkur frá þeim stefnum og tískustraumum sem hafa verið í gangi og því sem er framundan. Ben Boorman er einn þeirra sem við spjölluðum við.
Ben rekur Mikka Ref vínbar og kaffihús sem staðsett er á Hverfisgötunni og í Veru mathöll, einnig rekur hann Berjamór ehf. og flytur þar inn lífræn léttvín. Ben segir fólk vera í auknum mæli farið að gera kröfur til þeirra vína sem það kaupir og drekkur. Hann segir vín vera mikilvægan þátt í matarmenningu og vonar að á árinu 2023 muni ákveðin hugarfarsbreyting eiga sér stað þannig að fólk þori að smakka og drekka gæðavín við hversdagsleg tilefni, ekki bara þegar mikið stendur til.
Spurður út í helstu stefnur og strauma sem hann varð var við árið 2022 segir hann fyrst og fremst sjá jákvæða þróun varðandi það að fólk líti í auknum mæli á vín sem stóran og þýðingarmikinn hluta af matarmenningu. „Svo er gaman að sjá aukinn áhuga á afurðum úr rekjanlegum hráefnum, undanfarin ár hefur þetta þetta átt við um matargerð en núna upp á síðkastið á þetta einnig við um vín.” Hann segir fólk farið að gera auknar kröfur og velja vín og mat sem er framleitt á sjálfbæran hátt.
„Því miður er önnur verri þróun að eiga sér stað og það er aukinn kostnaður, hann felst í dýrara hráefni og vinnuafli. Loftslagsáhrifin og óstöðugleikinn í þeim málum hefur orðið til þess að flaskan verður dýrari, á sama tíma og framleiðendur og aðrir í faginu vilja hvetja neytendur til að sýna smá dirfsku við val á víni og prófa eitthvað nýtt, þetta er flókið.”
Hvað með stefnur og strauma árið 2023? „Vonandi færist það í aukana að fólk líti á vín sem eitthvað sem má neyta hversdagslega, ekki aðeins með fínum mat eða við formleg tilefni.” Hann segir sig og fleiri í bransanum vera að vinna að því að innleiða ákveðna hugarfarsbreytingu hvað þetta varðar, þá m.a. með því að ýta undir skilning fólks á víni. „Það tekur allt saman tíma.”
„Vonandi færist það í aukana að fólk líti á vín sem eitthvað sem má neyta hversdagslega.”
Hafa einhverjar þrúgur eða svæði verið að fá meiri athygli undanfarið? „Klárlega. Við erum t.d. með vín frá ungum kvenkyns framleiðanda, Jas Swan, frá Mosel í Þýskalandi. Vínin hennar eru að fá töluverða athygli, að miklu leyti vegna þess að hún er að vinna með blönduð þrúguafbrigði sem hafa verið ræktuð til að standast sýkingar af völdum sveppa og myglu sem hefur verið að aukast með tilkomu hnattrænnar hlýnunar.” Hann bætir við að vínin hennar séu sérlega spennandi og nýstárleg og skemmtileg viðbót á vínmarkaðinn. Við erum einnig svo lánsamir að fá að vinna með Partida Creus sem eru framleiðendur í Bonastre á Spáni, þeir hafa átt velgengni að fagna í vínheiminum fyrir það að endurvekja Sumoll og aðrar eldri og hefðbundnari þrúgur sem hafa fallið svolítið í gleymsku vegna annarra franskra þrúgna sem hafa verið í tísku undanfarna áratugi. Þeir hafa sýnt fram á að þessar gleymdu þrúgur hafi mikla möguleika við gerð spennandi vína.”
Spurður út í hvort hann hafi tekið eftir mikilli þróun undanfarin ár hvað vínmenningu á Íslandi varðar svarar hann játandi. „Út frá sjónarhóli víninnflytjanda og heildsala þá hef ég séð aukinn áhuga frá kokkum sem vilja vinna með hrein vín sem eru framleidd með lágmarks inngripi.” Hann segir þetta vera breytingu frá því sem áður var þar sem áhuginn á slíkum vínum kom áður fyrr frekar frá vínþjónum veitingahúsa en þeir mættu ákveðinni mótstöðu úr eldhúsinu.
„En frá sjónarhorni einhvers sem rekur vínbar þá er ég að sjá mikla aukningu á nýjum framleiðendum sem eru að koma inn á markaðinn – alla jafna ætti það að vera jákvæð þróun en núna er fólk í faginu bara að reyna að halda sínum rekstri á floti í núverandi efnahagsástandi.” Hann bætir við að áfengisskattar hafi mikil áhrif á vínheiminn og dragi verulega úr möguleika vínáhugafólks á að prófa ný og spennandi vín.Þegar Ben er spurður út í hvort hann sjálfur sé sérstaklega spenntur fyrir einhverju tilteknu nýju víni þá segir hann: „Þessa stundina erum við að bíða eftir nýrri sendingu frá víngerðarmanninum Pierre Fenals hjá Maison en Belle Lies. Pierre er 75 ára, með 20 ára reynslu í víngerð en bakgrunnur hans liggur í vísindum og hann hefur lagt áherslu á vistvæna ræktun. Hann stundaði námí BurgundyWine School í Beaune í Frakklandi og keypti í kjölfarið vínekrur í Maranges og Santenay, sem eru einhver eftirsóttustu svæði heims þegar kemur að víngerð. Svo er ég alltaf jafn þakklátur fyrir vínið sem við fáum frá Olivier Horiot, að opna flösku frá honum er mikill lúxus.”
Spurður út í ferðalög og hvort það sé einhver ákveðinn áfangastaður sem hann myndi vilja mæla með fyrir vínáhugafólk nefnir hann Frakkland. „Það er eiginlega ómögulegt að skemmta sér illa á vínhátíð, ég myndi mæla með að fara á La Dive Bouteille í Saumur í Frakklandi. Þegar sú hátíð stendur yfir ríkir alveg frábær orka og kraftur yfir þessu fallega svæði. Loire-dalurinn á ávallt sérstakan stað í hjarta mínu, alveg síðan árið 2010 þegar ég áttaði mig á að ég hefði raunverulegan áhuga á víni eftir að hafa fyrir slysni keypt flösku af Sancerre Pinot Noir.”
Þegar hann er svo beðinn um að mæla með víni sem klikkar aldrei að hans mati segir hann: „Fruit Jazz frá Sylvain Bock, úr blöndu úr grenache og syrah þrúgum, frá hinu grýtta Ardéche-héraði á sunnanverðu Frakklandi. Það er nógu margslungið fyrir reynslumikla vínunnendur en létt í senn, og á viðráðanlegu verði, þannig að allir geta notið þess.”