Það getur verið þreytandi að fara út að borða með vinahópnum. Þú ert kannski búin að sitja við borðið í klukkutíma og langar að hreyfa þig aðeins en hefur enga afsökun til að standa upp.
Það er á þessari stundu sem reykingafólkið stendur upp og fer út. Væri nú ekki gott ef þú værir reykingamanneskja líka?
Það eru nefnilega margir kostir sem fylgja því að reykja:
1. Þar sem það er hvergi leyfilegt að reykja inni – þá hafa reykingamenn ástæðu til að upplifa storm og rigningu á meðan allir hinir eru bara inni.
2. Þú þarft aldrei að hafa áhyggjur af því að vera með fulla vasa af klinki eða pening í lausu því þú eyðir honum jafn óðum í sígarettur.
3. Það eina sem þú sem reykingamanneskja þarft að óttast í lífinu er að vera ekki með kveikjara (og kannski smá líka að deyja úr krabbameini).
4. Þú þarft ekki lengur að hafa áhyggjur af því að fólk standi óþægilega nálægt þér þegar það talar við þig. Það er nefnilega svo vond lykt af þér.
5. Alltaf þegar þú hefur ekkert til að tala um við vini þína getur þú bara talað um hvað þig langar mikið til að hætta að reykja. Eða hvað þig langi mikið í sígarettu.
6. Þú lítur út fyrir að vera mun eldri en þú ert – sem er augljóslega kostur ef maður vill sleppa við að vera spurður um skilríki í Ríkinu – og líka ef maður er að sækja um að komast í Rótarýklúbb.
7. Fyrir þá sem dýrka gular tennur – þá eru reykingar algjör gullkista og mikil uppspretta af gulu. Jafnvel gulum fingrum og nöglum ef fólk er nógu duglegt.
8. Reykingum fylgir oft hausverkur og reykingahósti. Og þótt að hausverkurinn geri ekki mikið fyrir þig – þá æfirðu magavöðvana þegar þú hóstar.
9. Ef þér finnst ekki nógu margir hlutir í lífinu sem gætu látið þig deyja fyrir aldur fram, þá er sígarettan ein af þessum pottþéttu leiðum til að auka stórkostlega líkurnar á hjartaáfalli og krabbameini. Win-Win situation.
10. Ef þú reykir nógu lengi þá geturðu lent inni á spítala og börn geta komið og skoðað þig reykja í gegnum gat á hálsinum – og þannig geturðu haft jákvæð áhrif á æsku landsins.