Úlfur Úlfur er uppáhalds bjór margs bjóráhugamannsins – en Borg Brugghús er framsækin bruggverksmiðja – og skeytir engu um söguna í viðleitni sinni að fullkomnun.
Bruggmeistararnir rituðu þetta á Facebook-síðu Borgar Brugghús.
Kæru þið.
Eins og við ræddum hér stuttlega um daginn er stanslaus þróun í gangi alla daga hjá okkur og vandræðalega lítil virðing borin fyrir fortíðinni á köflum, enda kemur hún aldrei aftur. Nú höfum við skipt út gernum bæði í Úlfi Nr.3 og Úlfi Úlfi Nr.17 og erum agalega ánægð með nýja húsgerinn eftir tilraunir og leit í eitthvað á annað ár. Gerinn sem varð að lokum fyrir valinu er skoskt ölger sem skilar okkur ennþá ríkari ávaxtatónum og ennþá meiri djús en áður!
Aukreitis höfum við dregið þónokkuð úr filteringu á úlfafjölskyldunni undanfarið sem hefur valdið einhverjum smá usla hjá hörðum Úlfsfylgjendum, en til að taka af allan vafa þá á bjórinn sem sagt að vera svona.
Við mælum annars með að þið skellið ykkur í Vínbúðir, Fríhöfnina eða á næsta topp bjórbar og testið þetta með okkur. Við viljum jafnvel meina að nýjastu laganir af Úlfrúnu, Úlfi og Úlfi Úlfi séu þær bestu til þessa. Það væri gaman að fá ykkar álit, óþvegið.
Ást og friður.