Þingmaðurinn Björn Leví Gunnarsson segir frá því í færslu á Facebook að það hafi aldrei verið fleiri umsagnir sendar inn heldur en núna út af veggjaldaáætluninni.
Einungis 7% fólks styður veggjaldaáætlunina – en í annarri færslu þá sýnir Björn fram á að það er auðvelt að finna aðra leið til að tækla þetta mál
Ég er búinn að fara yfir 644 umsagnir um veggjaldaáætlun meiri hlutans. Margar athugasemdir eru ítarlegar, aðrar stuttar og hnitmiðaðar (stuðningur eða andmæli). Tölfræðin, fyrir þá sem hafa áhuga:
93% andvíg veggjaldaáætlun meiri hlutans
7% styðja veggjaldaáætlunina.
Það á enn eftir að skrá nokkrar umsagnir en umsagnarfrestur er nú liðinn (amk möguleikinn á að það sé auðvelt að taka tillit til umsagna í þinglegri meðferð – það er alltaf hægt að senda umsögn á meðan málið er í vinnslu nefndarinnar).
Mig langar til þess að þakka þeim sem sendu umsagnir. Heildarfjöldi umsagna er nú 773 umsagnir þar sem tæpar 70 bárust um samgönguáætlunina sjálfa og (enn sem komið er) um 700 um veggjaldaáætlun meiri hluta. Þetta er met í fjölda umsagna, til hamingju þið og takk kærlega fyrir að sýna þessu áhuga.
Það þarf átak í samgöngumálum. Það eru hins vegar fleiri fjármögnunarleiðir mögulegar en að setja sérstakan veggjaldaskatt á stór-höfuðborgarsvæðið (atvinnusvæði höfuðborgarinnar).
Nokkrir augljósir möguleikar:
– Skattar voru lækkaðir um 12 milljarða í síðustu fjárlögum. Það meira en dugar til þess að fjármagna þessar framkvæmdir. Það hefði verið hægt að lækka skatta og fjármagna þetta samgönguátak.
– Það er gert ráð fyrir þó nokkuð mörgum milljörðum í afgang. Þeim er ætlað að greiða niður skuldir en þetta samgönguátak er í raun gagnvart ákveðinni uppbyggingar- og viðhaldsskuld. Við skuldum bæði uppbyggingu og viðhald eftir hrunárin. Það er hægt að breyta þessu í peningalega skuld, á nákvæmlega sama hátt og gert er ráð fyrir nema þá greiða þá skuld með afgangi af ríkissjóði í staðinn fyrir með veggjöldum.
– Það væri hægt að dreifa því samgöngufé sem þó er til betur þannig að stór-höfuðborgarsvæðið, þar sem mest af bensíngjaldinu verður til, sé ekki skilið jafn mikið útundan og raunin er í tillögu að samgönguáætlun. Það myndi minnka lánsþörfina fyrir stór-höfuðborgarsvæðið en mögulega auka lánsþörf annarsstaðar. Það myndi gera það að verkum að höfuðborgarsvæðið væri ekki eini staðurinn á landinu sem fjármagnaði samgöngur með bæði bensíngjöldum og veggjöldum.
– Það er hægt að beita núverandi kerfi bensíngjalda. Þau eru eins konar veggjöld sem eru meira að segja hvetjandi til þess að nota sparneytnari bíla. Þar sem mest af bensíngjaldinu kemur hvort eð er frá höfuðborgarsvæðinu þá jafnast það ágætlega út.
Til þess að hafa annað á hreinu. Allir skattar og gjöld sem tekin eru af bílum fara í samgöngur á einn eða annan hátt. Annað hvort í vegi og viðhald eða kosta afleiðingar samgangna, þar á meðal slysa. Það er algeng mýta sem er að gang að bifreiðaeigendur séu skattpíndir langt umfram þann kostnað sem hlýst af bílum. Það getur vel verið að það muni einhverju en upphæðirnar sem sagt er að muni eru langt frá því að vera sanngjarnar. Í þeim upphæðum á algerlega eftir að taka tillit til slysa og bara þau nokkurn vegin útskýra það sem upp á vantar.
Ég vona eftir málefnalegri umræðu um þetta og að það verði hlustað á þau rök sem fram koma í stað þess að rjúka þeim tillögum sem liggja fyrir í gegn. Ef það er eitthvað sem umsagnirnar ættu að segja okkur, þá segja þær það.