Auglýsing

Einar Ísfjörð: „Og af hverju er ég svona feitur aumingi?“- Skyldulesning!

Einar Ísfjörð skrifaði á heimasíðu sína einarisfjord.com – pistil um heilsu sem heitir „Og af hverju er ég svona feitur aumingi? Hún fer inn á mjög þarft svið sem sjaldan er talað um.

Við gefum Einari orðið …

“Af hverju þarftu endilega að fara á æfingu í dag?”

“Getur þú ekki sleppt að æfa, þú ert alveg í fínu formi?”

“Hvernig nennniru að æfa svona oft í viku?”

“Af hverju ertu alltaf að borða svona hollt?”

Þessar spurningar og fleiri í þessum dúr, eru spurningar sem ég hef fengið í miklum mæli allt frá því að ég var 16-17 ára þegar ég byrjaði að hreyfa mig eitthvað af viti eftir að ég lagði fótboltaskónna á hilluna eftir að hafa þótt “of efnilegur”, eins og þeir kusu að kalla það.
Ég bjó á Selfossi og ég spurði besta vin minn hvort hann hefði áhuga á að byrja að mæta með mér í ræktina. Mig hafði langað það síðan ég var í 8.bekk en hafði ekki komið mér í það. Ef ég á að vera alveg hreinskilinn þá held ég að ég hafi verið hræddur við það. Hræddur við að kunna ekki á öll tækin, kunna ekki æfingarnar og vita ekki hvað ég ætti að gera.
Mamma gaf mér reyndar gamla klippikortið sitt úr íþróttahúsinu á Húsavík þegar ég var í 10.bekk. Þar var pínulítill salur þar sem engin æfði nema ég í þessu 10 skipti sem eftir voru á kortinu. Ég man að mér fannst ótrúlega gaman að koma þar inn því þarna gæti ég æft. Þessi fáu skipti einkenndust af mikilli vanþekkingu og ég endaði á að gera 2-4 æfingar sem ég taldi mig kunna og lengra náði það ekki.

Ég byrjaði loksins af alvöru á fyrsta árinu í fjölbraut. Þá byrjaði ég að æfa eftir programmi sem einhvern veginn rataði í hendurnar á mér fyrir algjöra tilviljun. Mér fannst það geðveikt! Það að fara og “lyfta” eftir skóla varð strax að rútínu og var það skemmtilegasta sem ég gerði.

Ef við tölum mannamál þá er ég í dag stærri en flestir vinir mínir og í raun heldur en flestir aðrir karlmenn. Ef ég væri ekki með “prófa-bumbu” núna þá gæti ég á góðum degi kallast massaður. En fyrir mér var það aldrei markmiðið þegar ég byrjaði að mæta í ræktina. Ég vildi vissulega verða stæltur en sérstaklega vildi ég verða sterkur. Einn besti vinur minn úr grunnskóla var lágvaxnari en ég en hann var miklu sterkari. Alltaf þegar við slógumst í gamni þá vann hann. Ég vildi geta lamið hann í klessu. Eðlileg markmið hjá dreng í 10.bekk – veit ekki með það.
En mér fannst það að æfa, það skemmtilegasta sem ég gerði og það að verða “massaður” var bara “aukaverkun” af því. Frábær aukaverkun ef þú spyrð mig.

Og um leið og ég byrjaði að hreyfa mig eins og maður að þá fylgdi mataræðið með.

Ég ætla ekki að reyna að tala ykkur fullorðna fólkið til eða að reyna að predika yfir ykkur. Oftast reynist erfitt að kenna gömlum hundi að sitja og ennþá erfiðara getur reynst að fá gamlan mann til að sitja ekki.

Ég er 27 ára í dag og ég held að það sé óhætt að segja að þau sem eru eldri en ég í dag munu ekki byrja að hreyfa sig né borða hollari mat en þau gera nema þau fái hjartaáfall eða greinast með blóðþrýstings vandamál og geta þá valið á milli þess að hreyfa sig eða deyja.

Ef við tölum um gamla skólann að þá eru mjög stór hluti eldri borgara virkilega veikir og/eða með gigt og liðamótin í þeim eru ónýt. Ég fæddist ekki áðan og geri mér grein fyrir því að hrörnun líkamans er eðlileg en gamalt fólk notar aldur sinn oft sem afsökun fyrir því að vera orðin handónýt rétt eftir 50 ára afmælisdaginn. Þú getur haft mikla stjórn á þessari hrörnun með því að borða ekki eins og ruslatunna og hreyfa þig á hverjum degi.

Þið eruð fullorðið fólk og verðið að taka ábyrgð á ykkar líferni sjálf. En börnin eru á ykkar ábyrgð líka.

Í dag eru margir krakkar á aldrinum 14-20 ára byrjuð að “mæta í ræktina” og það er frábær þróun. En mjög margir krakkar á þessum aldri er háður Sóma samlokum og tölvuspilum og það eru þau sem rífa okkur í upp í fyrsta sæti yfir feitustu þjóðir heims. Meira að segja leikskólabörn eru orðin feit? Hvernig tókst þeim það?

Jú mikið rétt, þú nenntir ekki að hlusta á þau grenja á meðan þú varst á Facebook þannig að leyfðir þeim að borða nammi og snakk þar til það passaði ekki lengur í fötin sín.
Ég vann á leikskóla einu sinni, reyndar bara í eina viku því að það var svo óheyrilega leiðinlegt, en þar voru svo feit börn að ég var oft ekki viss hvort um væri að ræða barn eða hrúgu af dekkjum. Ef barn er feitt á leikskólaaldri þá verður það líklega feitt í grunnskóla og þá er það oft í mjög slæmum málum fyrir framtíðina því það getur reynst erfitt að snúa við blaðinu.

Ég hef rætt um það áður að í dag má aldrei segja neitt án þess að vera stimplaður dóni og ókurteis. Ég ætla samt að segja þér þetta.

Þú ert mjög líklega feit/ur og svo ef þú átt barn þá er það sennilega komið með sykursýki 2 áður en þú klárar þessa grein.

Þegar ég segi þér að þú sért feit/ur þá meina ég það ekki illa. Það sem ég meina er, að fitan sem er föst við líkamann á þér, er meiri en heilbrigt getur talist. Mér er akkúrat alveg sama hvort þú sért með sixpack eða með bumbuna uppá borði. Þér ætti þó ekki að vera sama. Ef þú ert það sem gæti talist feit/ur, þá ertu í áhættuhópi fyrir mörgum af helstu heilsubrestum sem í boði eru. Ég ætla ekki að nefna þá alla fyrir þig því þú hefur heyrt um þá alla áður en þú nenntir ekki að hlusta. Í staðinn sagðir þú:

“Ef ég er feit/ur og mér líður vel er það þá ekki bara hið besta mál?”

Og þá svöruðu allir vinir þínir “Jú það er hið besta mál ef þú ert sátt/ur við sjálfan þig!”

Passaðu andlitið á þér því það er köld tuska á leiðinni.

Nei, það er ekki hið besta mál og vinir þínir eru aumingjar fyrir að þora ekki að segja þér satt.

“Besta mál” væri ef þú værir í toppformi og ekki á leiðinni í gröfina fyrir aldur fram eftir að þú varst búin/nn að missa báðar hendur og fætur eftir tapleik gegn sykursýki eða eftir að hjartað í þér hreinlega höndlaði ekki meiri yfirvinnu.

Nú eru margir að hugsa að oft sé þetta ekki svona einfalt og vissulega er það rétt. Það eru ekki allir feitir vegna leti eða ást á kleinuhringjum. Margir er feitir vegna veikinda, sem geta verið margskonar eins og hormónaójafnvægi, skjaldkirtilsvandamál, þunglyndi eða önnur líkamleg- eða andleg vandamál og allt þar frameftir götunum. Ef það á við þig þá ættir þú í samræmi við lækni að finna út hvað hentar þér best.

Ég hef sjálfur aldrei verið mjög feitur, en ég hef þó dottið vitlausu megin við 20 prósentin. Það gerðist síðasta sumar þegar ég lá bakbrotinn og krambúleraður í rúminu allt sumarið, með hamborgara og Hlöðver í æð. Ég notaði það sem afsökun að vera meiddur til að úða í mig  öllu þessu drasli og fyrir vikið varð ég ó-sundlaugar-hæfur. Á þessum tíma var ég aumingi og fitnaði fyrir vikið.

Eins og áður kom fram lenti ég í alvarlegu slysi síðasta sumar þar sem ég bakbrotnaði eftir hátt fall. Ég er í dag að takast á við þau meiðsli en að einhverju leyti munu þau líklegast fylgja mér út ævina. Það lang besta sem ég get gert fyrir sjálfan mig til að jafna mig á þessum meiðslum er að hreyfa mig og stunda styrktarþjálfun.
Eitt það fyrsta sem hjúkrunarfræðingurinn á spítalanum sagði mér var að ef ég væri ekki svona stór og sterkur þá hefði ég hlotið mænuskaða og væri heppinn ef ég gæti gengið.

Svo ég svari spurningunum frá því í byrjun, að þá er þetta einfalt fyrir mér.

Þetta snýst ekki um að hafa sixpack og líta vel út í sundi, þetta snýst um það að líkaminn þinn virki þegar þú þarft á því að halda og að þú sinnir honum eins og hann á skilið. Ef líkaminn þinn getur ekki treyst á þig til að hugsa um sig, þá skalt þú ekki treysta á hann þegar þú þarft á honum að halda.

Drullaðu þér í form eða drepstu úr leti.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing