Auglýsing

SELSHAMURINN heimsfrumsýnd á stærstu stuttmyndahátíð Spánar

Stuttmynd Uglu Hauksdóttur, Selshamurinn, hefur verið valin í aðalkeppni hinnar virtu alþjóðlegu kvikmyndahátíðar í Huesca á Spáni. Hátíðin mun vera haldin í 48. skipti þetta árið en vegna ástandsins mun hún fara fram á stafrænu formi dagana 12. – 20. júní og mun Selshamurinn vera heimsfrumsýnd á hátíðinni.

Myndin er ein af 31 mynd í alþjóðlegri stuttmyndakeppni hátíðarinnar en hátt í 2.000 myndir voru sendar inn frá 93 löndum. Aðeins tvær myndir voru valdnar inn frá Norðurlöndunum.
Alþjóðlega kvikmyndahátíðin í Huesca er ein þeirra hátíða sem er á skrá Bandarísku kvikmyndaakademíunnar sem stendur fyrir Óskarsverðlaununum. Vinningsmyndir hátíðarinnar koma þar með til greina í Óskarsval vegna stuttmynda.

Selshamurinn fjallar um hina fimm ára gömlu Sól sem býr með föður sínum í afskekktu húsi við hafið. Ímyndunarafl hennar tekst á flug í tómarúmi einmanalegra daga á meðan faðir hennar tekst á við tónsmíðar. Þegar Sól skynjar trega föður síns, sem er henni óskiljanlegur, finnur hún hugarró í gamalli íslenskri þjóðsögu.

Myndin er skrifuð og leikstýrð af Uglu Hauksdóttur og framleidd af Antoni Mána Svanssyni fyrir Join Motion Pictures. Meðframleiðandi er Gunnhildur Helga Katrínardóttir og yfirframleiðandi Guðmundur Arnar Guðmundsson. Með aðalhlutverk fara Björn Thors og Bríet Sóley Valgeirsdóttir.

Ugla Hauksdóttir útskrifaðist sem leikstjóri og handritshöfundur úr Columbia University árið 2016 og hefur síðan þá starfað við sjónvarpsleikstjórn bæði á Íslandi og erlendis. Árið 2018 leikstýrði Ugla tveimur þáttum af Ófærð og fékk í kjölfarið boð um að leikstýra þremur þáttum af Amazon seríunni Hanna sem frumsýndir verða í sumar. Nýlega hlotnaðist Uglu sá mikli heiður að vera boðið inngöngu í Leikstjórasamband Bandaríkjanna eða Directors Guild of America, og mun hún á þessu ári leikstýra tveimur þáttum af Amazon seríunni The Power sem byggð er á metsölubók eftir Naomi Alderman.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing