Sturlaugur Jón Björnsson bruggmeistari hjá Borg Brugghúsi og Sturlaugur Orri Hauksson ísgerðarmaður hjá Skúbb – hafa farið í guðdómlegt samstarf bjórs og íss.
„Okkur langaði að búa til októberfest stemmingu í ísgeiranum og blanda þá saman ísgerð, bjór og pretzel. Við heyrðum í krökkunum í Borg Brugghúsi og þau voru einmitt sjálf með miklar pælingar í blöndun íss og bjórs. Við enduðum á því að nota bjór frá þeim sem heitir Surtur Nr.47 og er kaffibættur Imperial Stout, 10% í alkóhóli. Hann virkar frábærlega í ísinn og við bjuggum svo einnig til karmellu úr honum sem við notum út á ísinn ásamt pretzel. Við erum hrikalega ánægð með útkomuna.“ segir Sturlaugur Orri Hauksson hjá Skúbb.
„Skúbb opnaði á Laugarásvegi 1 fyrr á árinu og sérhæfir sig í handgerðum ís í Ítölskum stíl sem við lögum á staðnum í litlum uppskriftum. Rík áhersla er á ferskt og ósvikið bragð sem við náum með sérvöldum hráefnum frá öllum heimshornum og enn fremur notum við eingöngu lífræna mjólk og sleppum óþarfa aukaefnum“
„Útkoman er glæsileg hjá þeim eins og við var að búast hjá þessum snillingum. Blöndun á bjór og ís á sér mikla og skemmtilega sögu, ekki síst í bandaríkjunum með hinu svokölluðu „beer float“ – einnig má skoða slíka útfærslu með skemmtilegum gosdrykkjum á borð við Appelsín.“ segir Sturlaugur Jón Björnsson, bruggmeistari hjá Borg Brugghúsi.
Ísrétturinn ber nafnið „Surtur&Pretzel“ og var að detta í sölu hjá Skúbb að Laugarásvegi 1. Hann verður í boði á meðan birgðir endast, sem er vonandi í einhverja daga samkvæmt Sturlaugunum.