Það kannast allir við óþolandi ástand sem kallast frestunarárátta. Hún virðist oft koma upp á versta tíma og getur eyðilagt árangur í vinnu eða skóla. Til að koma í veg fyrir eða laga frestunaráráttu þá er mikilvægast að vita hvað er að gerast í hausnum á manni.
Ef þú veist hvað veldur þessu þá er mun auðveldara að finna lausn og koma sér að verki.
Frestunarárátta er hvorki leti né skortur á viljastyrk eins og margir halda. Rót vandans er ótti við mistök eða ótti við að standast ekki himinháar kröfur. Hugsunin sem veldur þessu er að allt þurfi að vera fullkomið og því kvíðum við fyrir því að byrja.
Aðferðin sem við notum til að losna við kvíðann er að fresta verkefninu og gera eitthvað skemmtilegt þar til kvíðinn líður hjá. Þetta virkar í skamman tíma en þegar við höfum verið að spila tölvuleik í þrjár klukkustundir þá styttist tíminn sem við höfum og kvíðinn eykst. Við frestum þá enn lengur og svo getur allt komist í óefni.
Lausnin kemur oft að sjálfu sér þegar við erum svo löngu fallin á tíma að við sjáum ekki lengur fram á að geta fengið 10 í prófinu. Þá hugsum við „fjandinn hafi það“ – ég er hvort sem er fallinn en gæti svo sem reynt að gera eitthvað fram að prófinu.
Besta leiðin er því að byrja á að hugsa um 1 í staðinn fyrir 10. Ef þú gerir ekkert nema skrifa nafnið þitt þá ertu komin með 1 í einkunn. Svo geturðu hugsað að ef þú lest yfir glærupakkann þá ættirðu að ná 3. Með því að lesa glósurnar líka ertu kominn með 5 og svo framvegis. Þá ertu alla vega búin að ná og allt eftir það er í plús.
Það er mikilvægt að vera með námsáætlun þar sem kemur fram hvað er til prófs en það getur valdið kvíða að horfa sífellt á það blað. Í stað þess að horfa á hvað þú átt eftir gætir þú tekið nýtt A4 blað og skrifað niður það sem þú hefur klárað. Þetta eykur sjálfstraustið og frestunaráráttan hverfur.
Hér er myndband sem lýsir því hvernig frestunarárátta virkar og ætti að hjálpa til í prófunum.
Gangi ykkur vel í prófunum og deilið endilega með þeim sem þurfa á því að halda.