Hann Gísli Marteinn skrifaði þessa færslu í opna Facebook hópinn ‘Vesturbærinn’ þar sem hann hrósar Vesturbæingum fyrir málefnaleg mótmæli þegar kemur að Hringbrautarmálinu.
Einnig þá stingur hann upp á lausn – eitthvað sem hann segir að sé í raun eina lausnin í málinu.
Mig langar að hrósa þessari grúppu og sérstaklega auðvitað þeim foreldrum sem hafa gengið fram fyrir skjöldu og komið því í gegn að nú verði gangbrautarvarsla á þessum ljósum á Hringbraut/Meistavöllum. Virkilega málefnalega að þessu staðið og vel gert! Frábært líka að íbúafundur sé í pípunum.
Sem borgarfulltrúi í 10 ár og íbúi í hverfinu í 17 ár hef ég haft mikið af samgöngumálum hér að segja. Hringbrautin er algjör skaðvaldur í okkar góða hverfi. Það er t.d. staðreynd að börn norðan Hringbrautar njóta ekki jafnræðis þegar kemur að aðgengi að tómstundaiðkun á KR svæðinu. Tölur sýna að miklu færri krakkar í gamla vesturbænum stunda tómstundir en þau sem búa sunnanmegin. Ástæðan er fyrst og fremst Hringbrautin. Í öðru lagi er Hringbrautin uppspretta mengunar – bæði þeirrar sem við öndum að okkur og hávaðamengunar. Hvorttveggja myndi batna verulega með lækkuðum hraða. Nýjar rannsóknir benda til að fólk sem býr nærri hraðbrautum og andar að sér svifryki sé í mikilli hættu á bæði öndunarfærasjúkdómum, krabbameini og alzheimer. Það er með öðrum orðum veruleg heilsufarsleg áhætta að halda götunni sem þessari hraðbraut. Og að lokum er að auðvitað himinhrópandi rugl að við þurfum að óttast um líf okkar og barnanna okkar ef við viljum komast yfir götuna.
Það er bara ein lausn á þessu máli og hún er að lækka hraðann á götunni. Og það dugar ekki að skipta bara um skilti. Það þarf að þrengja götuna því bílar aka hægar í þröngum götum (það má alveg vera áfram 2+2 akreinar, en þær þurfa að vera þrengri), það á að breikka gangstéttar, bæta lýsingu, setja borgartré meðfram götunum, hafa hraðamyndavélar og auðvitað myndavélar sem ná þeim sem fara yfir á rauðu ljósi. Vörum okkur á þeim sem leggja til að gangandi verði settir annaðhvort ofan í jörðina í undirgöng eða uppá býr. Slík mannvirki eru fyrst og fremst studd af þeim sem *ekki* vilja hægja á umferðinni. Sem gerir það að verkum að allir þeir sem ætla yfir götuna einhversstaðar annarsstaðar en á þessum eina stað sem undirgöngin væru, væru í ennþá meiri lífshættu en núna. Það er Vegagerðin/ríkisstjórnin sem ræður þessari götu og mér finnst alveg með ólíkindum að enginn hafi talað við samgönguráðherra og að þingmenn úr þessu hverfi hafi ekki tjáð sig um málið. En ef við stöndum saman um nauðsynlegar úrbætur getum við fengið miklu áorkað. Takk aftur fyrir glæsilega og málefnalega baráttu kæru nágrannar!