Auglýsing

Gylfi opnar sig um LOKUN Símabæjar – Góðærið og flutningurinn enduðu 20 ára rekstur! – MYNDIR

Gylfi Gylfason þarf því miður að loka Símabæ eftir 20 ára rekstur. Hann opnaði sig um málið með þessum status á Facebook og myndunum tveim hér fyrir neðan: 

Mynd frá Símabær.

Það tekur mig sárt að þurfa að segja frá endalokum rekstrar míns Símabæjar ehf frá og með 7 mars en þangað til verður blasið til stórfelldrar rýmingarsölu með 30-70% afslætti af flestum vörum.

Það var stofnað til þessa rekstar með bjartsýni frekar en auraráð og það hefur í raun háð mér alla tíð. Við höfum átt okkar góðu ár en eftir uppsögn á húsnæði í Mjódd á svipuðum tíma og farsímasala var orðin illmöguleg fyrir sérverslanir þá tók við tímabil sem ég taldi félagið komast í gegnum með því að hætta starfmannahaldi og vinna meira og minna einn. Það hefði gengið upp ef leiguhúsnæðið við Ármúla hefði ekki verið selt sl. sumar sem leiddi af sér erfiðan flutning til Kópavogs.

Við áttum ágæta byrjun hér við Bæjarlind en vetrarsalan hefur verið ákaflega léleg svo ég met það sem fullreynt sé að reka þetta félag á viljanum einum saman. Ég er í raun búinn að ganga svo nærri sjálfum mér við þennan bardaga að ég hef ekki heilsu í meiri fórnir.

Ég er samt ákaflega ánæfður með hlutverk Símabæjar allt frá stofnun fyrir ríflega 20 árum því við vorum fyrsta verslunin sem var beilínis beint gegn ríkisfyrirtækinu Pósti og Síma og höfum leitt fjölmargar markaðsnýjungar á markaði símtækja og aukahluta til viðbótar við að hafa rekið Ebay verslun, GSM endurvinnslu og staðið fyrir Ebay sölunámskeiðum fyrir hundruði einstaklinga.

Símabær var fyrsta verslunin sem hóf að selja farsíma hlaðna og tilbúna og við vorum líka fyrstir til að þýða GSM leiðarvísa á íslensku áður en þeir fengust frá umboðsmönnum. Við innleiddum sölu veðurspátækja og gamaldags raftækja fyrstir allra og höfum alla líð boðið landsins fjölbreyttasta úrval GSM aukahluta sem hafa tryggt þúsundum símtækja framhaldslíf á hverju ári við mikið þakklæti eldirborgara og barna þeirra.

Stærsta verkefni Símabæjar er veskjaframleiðslan í Póllandi en nú eru þau m.a. framleidd úr fiskiroði og lofa góðu sem framtíðarsöluvara og í heildina höfum við selt yfir 5000 veski sem ég segi að hafi verið hönnuð af viðskiptavinum Símabæjar sem hafa haft mikil áhrif á vörustefnu mína í gegnum tíðina.

Símabær hefur alla tíð sparkað hressilega í samkeppnisaðila gagnvart verðsamkeppni og bent á linnulaust á smávöruokur í landi sem mælist eitt hið dýrasta heimi hvað eftir annað. Þannig uppskárum við miklar vinsældir um tíma fyrir að pönkast framhjá umboðsmönnnum með gríðarsterk vörumerki á borð við SanDisk, Samsung, Nokia ofl.

Það sem hefur í raun gert Símabæ mögulegt að starfa svo lengi án símtækjasölu er sú staðreynd að við hættum viðskiptum við innlenda heildsala og fluttum inn allar okkar söluvörur í gegnum sterk innkaupasambönd svo til hliðar skapaðist heildverslun. Það er í raun mjög fátítt að jafn lítil fyrirtæki séu svo stórhuga en með því að spila plötuna um litla ísland tókst mér að pota mér inn hjá ákaflega öflugum dreifingaraðilum sem seldu mér púðrið til að vagga bátnum við litlar vinsældir innlendra umboðsmanna. Um leið vildi ég sýna kollegum mínum svart á hvítu að heildsalar væru stundum að hirða til sín hærri álagningu en þeir sjálfir sem seldu í stykkjavís með fullri þjónustu. Það er nefnilega svo margt sem er óeðlilegt í verðmyndun á íslandi og við þessir smærri er teknir í afturendann alveg hægri vinstri þegar það kemur að viðskiptakjörum gagnvart blokkunum sem ráða öllu um það að ísland sé eitt dýrasta land heims.

Það er hinsvegar hluti vanda Símabæjar að nú er efnahagur almennt batnandi og það hreinlega virkar ekki eins vel og áður að nota undirboð til að trekkja inn nýja viðskiptavini. Það virkar eiginlega bara mjög illa, því miður. Reksturinn minn hefur alla tíð snúist um meira fyrir peninginn og það er að ákveðnu leiti að koma í bakið á mér nú.

Hugsunin eftir síðasta flutning var sú að auka vöruúrval stórlega hér við Bæjarlind sem er að mörgu leiti ákaflega heppilegt húsnæði og ekki vantar viðskiptasamböndin til að skapa hér spennandi dótabúð sem gæti rekist með starfsmanni mér við hlið. Það verður að segjast eins og er að félagið hefur ekki bolmagn til þeirra verka og hefur ekki einu sinni yfirdráttarheimild því ég hef allsstaðar komið að lokuðum dyrum gagnvart eðlilegri fjármögnun á verslun sem hefur starfað stanslaust í yfir tvo áratugi. Á sama tíma er ég hinsvegar þvingaður með lögum til fjármagna samkeppnisaðila í formi lífeyrissjóða sem eru að kaupa upp mestalla samkeppni og eru farnir að vinna gegn hagsmunum félagsmanna með gróðakröfu umfram samfélagslega ábyrgð sem gæti t.d. verið sú að nota álagningarmódel sem væri á sama róli og annarsstaðar í Evrópu.

En svona bara er þetta, við stefnum í raun að ákveðnu viðskiptalegu alræði örfárra handafa lífeyrisfjár, fulltrúa vogunarsjóða og annara peningaafla sem m.a. rústuðu húsnæðismarkaðnum og eru í raun að kaupa upp landið. Auðvitað er ekki á dagskrá á íslandi að gaurar eins og ég fái aðstoð við að vagga bátnum enda sést það vel í hinni litlu nýliðun í íslenskri verslun.

Ég hef gert nokkrar tilraunir til að selja verslunina sl. mánuði en án árangurs þótt í henni sé að finna sterk tækifæri fyrir fólk með markaðsskilning. Það var því niðurstaða mín að láta hér við sitja og róa á önnur mið eftir kærkomna hvíld. Síðasti opnunardagurinn verður því 7 mars en hugsanlega fyrr ef rýmingarsalan gengur vel en athugið að aðeins hluti rýmingarsölunnar er á vef Símabæjar því mér vinnst ekki tími til að fara yfir alla síðuna á þeim stutta tíma sem eftir er.

Hvet ykkur til að nýta þau frábæru rýmingartilboð sem nú þegar eru komin upp á forsiðu simabaer.is um helgina því ég veit að margt klárast fljótt og deilingar eru einnig vel þegnar svo það verður unnið um helgina við afgreiðslu netpantana og útsölumerkingar svo „uppseld“ staða á vefnum verði rétt og álagið við ryminguna deilist því ég starfa jú einn þessa dagana.

Ég þakka innilega þeim fjölmörgu sem sýnt hafa verslun minni tryggð í gegnum tíðina en ég segi stundum að ég hafi fengið að spjalla við fleiri íslendinga en nokkur stjórnmálamaður en útgefnir reikningar frá 2008 eru að nálgast 130.000 til viðbótar við reddingaheimsóknir því þekktust er verslunin hugsanlega fyrir smáreddingar í kringum rafhlöðusölu til að spara fólki bilanagreiningar á verkstæði.

Mér þykja þetta óendanlega döpur málalok miðað við það sem ég hef lagt á mig til að halda þessu gangandi og en það er samt léttir að sjá fyrir endann á langvarandi kvíðaástandi og geta sagt að ég hafi lagt mig allan í verkið, verið heiðarlegur og samviskusamur.

Með þeim lokaorðum býð ég ykkur hjartanlega velkomin á rýmingarsöluna en hverju ég tek uppá eftir lokun Símabæjar kemur í ljós á næstu vikum, en fyrst fer ég í frí.

Gylfi Gylfason

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing