Mörg erum við háð samfélagsmiðlum. Það er kannski ekki alltaf auðvelt að viðurkenna það, en ef þú hugsar út í það – hvað er það fyrsta sem þú gerir þegar þú opnar tölvuna?
Eða þegar þú situr á kaffihúsi að bíða eftir vinunum og ferð í símann – hvað skoðar þú þá?
Facebook er án efa svarið hjá mörgum.
Í rannsókn sem var framkvæmd af Cornell háskóla var fylgst með 5000 manns sem öll hættu á Facebook.
Tilgangurinn var að komast að því hvað veldur því að fólk sem hættir á Facebook endar iðulega með því að snúa þangað aftur á einhverjum tímapunkti.
Fyrsta niðurstaðan benti til þess að það væri einfaldlega fíkn, en ákveðinn hópur upplifði fráhvörf og fann fyrir raunverulegri Facebook fíkn.
Einn sjálfboðaliði viðurkenndi að alltaf þegar hann opnaði netið fyrstu 10 dagana eftir að hann hætti á Facebok byrjaði hann ósjálfrátt á því að stimpla inn „F“.
Þeir sem hafa miklar áhyggjur af því hvað fólki finnst um sig voru einnig líklegri til að opna Facebook á ný.
Niðurstaðan sýndi einnig fram á að fólk sem var hamingjusamt í lífi sínu var ólíklegra til að vilja enduropna Facebook reikninginn sinn.
Þeir sem voru „nojaðir“ og höfðu áhyggjur af öryggi gagna sinna og því að það væri verið að fylgjast með þeim voru einnig ólíklegri til að snúa tilbaka á Facebook.
Þannig að lykillinn er: Vertu hamingjusöm/samur og ekki pæla í því hvað öðrum finnst um þig, ef þú ætlar að hætta á Facebook. Svo sakar ekki að hafa dass af ofsóknaræði til að losna almennilega undan klóm samfélagsmiðlanna.