Það getur verið afskaplega hressandi að hnerra, ekki síst þegar hnerrinn er almennilegur. Eins gott og það getur verið að ná einum góðum hnerra, eða fleirum, er alveg jafnóþolandi að finna að maður þurfi að hnerra en getur það ekki. Það er hins vegar hægt að grípa til nokkurra gamalla og góðra ráða til að klára dæmið.
VIKAN tók fimm slík dæmi, sem geta komið að góðum notum næst þegar þú finnur kitl í nefinu en nærð ekki að hnerra.
Þessa grein ásamt öllu öðru efni sem birtist í tímaritum Birtíngs getur þú lesið með því að gerast áskrifandi – Prófaðu frítt í 7 daga
1. Horfðu í sterkt ljós
Fyrirbærið að hnerra þegar horft er í skært ljós kallast photic sneeze reflex. Dr. John Bosso segir það vekja taugaviðbrögð þegar horft er í sterkt ljós en það virki þó bara hjá um 25% fólks og tengist líklega erfðum á einhvern hátt. Þannig að ef foreldrar þínir, eða annað þeirra, hnerrar þegar þeir líta í sterkt ljós séu allar líkur á að þú gerir það líka. Ef ekki, þá sorrí Stína; þetta er örugglega ekki að fara að virka fyrir þig.
2. Þefaðu af sterku kryddi
Krydd eins og pipar, kanill og rauður pipar (cayenne) geta komið hnerra af stað þar sem það ertir taugaenda í nefinu að sögn Dr. Bosso. Hann vill meina að flestir ættu að ná að hnerra með þessu ráði. Hér er rétt að vara þig við; gættu þess að anda ekki kryddinu að þér því það getur sviðið og verið mjög óþægilegt. Það er alveg nóg að þefa varlega, bara rétt til að finna lyktina.
3. Kitlaðu nösina að innanverðu
Þú getur til dæmis rúllað upp tissjúi og sett það varlega inn í nefið. Þetta örvar taugaenda í nefinu og ætti að virka fljótt og vel hjá flestum, en Dr. Bosso varar við því að einhverju sé stungið of langt inn í nösina. Það þarf því að fara varlega.
4. Plokkaðu burt nefhár
Þetta er ekki það þægilegasta þar sem það að plokka nefhár örvar svokallaða þrenndartaug. Hún er önnur úr fimmtu tvennd heilatauga, liggur til andlitsins og greinist í þrjár kvíslar, og sendir boð um sársauka, snertingu og skynjun á hitastigi frá andlitinu upp í heila. Þetta getur framkallað hnerra en getur að sama skapi verið frekar óþægilegt. Jafnvel sárt að mati sumra. Einu sinni sat undirrituð við hliðina á manni í flugi til Bandaríkjanna sem plokkaði nefhárin úr báðum nösum sínum í dágóða stund. Já, hann hnerraði hressilega oftar en einu sinni.
5. Plokkaðu burt andlitshár
Þetta er svipað og að plokka burt nefhár. Að plokka burt andlitshár, eins og til dæmis úr augabrúninni eða við efri vörina, getur líka örvað hina svokölluðu þrenndartaug. Dr. Bosso segir að þetta ráð ætti að framkalla hnerra frekar fljótt en þetta sé eins og með ráðið með að plokka nefhár; kannski ekki eitthvað sem mann langar til að margendurtaka.
Margir vöðvar spennast þegar maður hnerrar, til dæmis vöðvar í augnlokum, brjóstvöðvar, magavöðvar og vöðvar sem stjórna raddböndum.
Ósjálfráð viðbrögð vöðva í augnlokum valda því að augun lokast alltaf á meðan við hnerrum.
Siðinn að segja: „Guð hjálpi þér“ þegar einhver hnerrar má rekja aftur til þess tíma er Svarti dauði geisaði. Pestin var afar skæð og þar sem hnerri þótti benda til þess að viðkomandi væri sýktur hrökk fólk í kút við hnerrann og bað því Guð að hjálpa hinum veika. Enda kannski lítið annað hægt að gera.