Sögupersónan Pétur Pan kom fyrst fram á sjónarsviði í bókinni The Little White Bird eftir skoska rithöfundinn Sir James Matthew Barrie árið 1902. Tveimur árum seina var leikritið Peter Pan, the Boy Who Wouldn’t Grow Up sett upp í London.
Verkið var endurútgefið sem barnabók nokkrum árum seinna og hefur sagan verið gefin út í ótal útgáfum í gegnum tíðina. til að mynda í söngleikjum, teiknimyndum og bíómyndum.
Nú er Pétur Pan mættur aftur á leiksviðið en í þetta skipti í Fjölbrautaskóla Garðabæjar og ný í splunkunýrri söngleikjauppfærslu Leikfélagsins Verðandi. Þegar Pétur Pan hittir Vöndu og systkini hennar eftir ærslafenginn eltingaleik við skuggann sinn upphefst spennandi ferðalag sem leiðir börnin á nýjar og ókunnar slóðir. Þau fylgja Pétri Pan og Skellibjöllu til Hvergilands þar sem sjóræningjar, frumbyggjar, týndir krakkar og óvæntar uppákomur bíða þeirra. Frumsamin tónlist og dansar setja þessa tímalausu sögu í litríkan búning og gera hana að frábærri skemmtun fyrir alla fjölskylduna.
Leikgerð: Andrea Ösp Karlsdóttir
Leikstjóri: Andrea Ösp Karlsdóttir
Danshöfundar: Berglind Ýr Karlsdóttir og Berglind Rafnsdóttir
Tónlistarhöfundur: Baldur Ragnarsson
Textahöfundur: Sævar Sigurgeirsson