Nafnlaus pistill eftir íslenska stúlku hefur verið að ganga um Facebook – en þar lætur hún lífstílsbloggara/snappara/Instagramstjörnur heyra það í nokkuð epískum ranti. Pistillinn er hér að neðan.
Ég bara verð að fá þetta!
Það eru svo mikil lífsgæði í því að hlamma sér í sófann eftir langan dag, kveikja á sjónvarpinu og horfa á auglýsingarnar. Ekki bíómynd eða þátt, heldur auglýsingar.
Okei djók, sleppum sjónvarpinu og höldum okkur við símann.
Ég hreinlega veit ekki hversu glatað lífið yrði ef það væri ekki fyrir allt þetta dót sem ég á. Ég bara verð að eiga og eignast svo margt.
Snapparar, þið hafið kennt mér að lífið er svo miklu betra ef ég bara þríf húðina á mér með 2 mismunandi vörum á kvöldin, ber svo á mig þrjú mismunandi krem og nota uppáhalds maskana ykkar þess á milli. Ég sver það, það er allt annað að sjá mig.
Ég má samt ekki gleyma að hugsa um hárið og neglurnar. Það er lágmark að eiga nokkrar tegundir af hármaska, hárnæringu og sjampói, olíu í hárendana,olíu á naglaböndin, æj fokkit keyptu þetta bara allt!
Ég ætla samt ekki að eyða öllum peningnum í snyrtivörur og krem, ég verð að eiga föt líka.
Það er lang best að kaupa sér nýja flík vikulega því hamingjan sem fylgir því endist svo lengi.
Ég er aldrei í neinum vafa með hvað ég á að kaupa vegna þess að ég er mötuð með því á instagram, snapchat og lífstílsbloggunum sem þekja facebookveggina.
Þannig auðvitað fer ég og kaupi föt, föt og meiri föt og TREÐ því svo inn í fataskápinn minn sem er svo stútfullur af allskonar flíkum sem ég nota ALDREI að ég get varla lokað honum.
Hamingjan er samt svo mikil að horfa á þetta. Næs!
Heimilið er svo allt annað mál, eða þú veist..
Lífstílsbloggarar, takk.
Takk fyrir að hafa auðveldað mér lífið og í leiðinni gert heimilið mitt fallegt. Það er mörgu sem þarf að huga að ef þú ætlar að halda heimili sem er instagramhæft eða almúganum bjóðandi. Nokkur atriði sem ber að hafa í huga..
Kauptu þér
Skandinavíska hönnun, nóg af henni! Helst iittala.
Matarstell,púða,teppi,myndir á veggina, körfur og sápudælur.
Ef þú vilt ekki vera eins og algjör steinaldarmaður þá verðuru að fá þér sérstaka TE skeið til að færa skandinavíska te-ið þitt yfir í handmálaða iittalabollann.
Helltu booztinu þínu yfir í krukku með loki, röri og handfangi og fáðu þér sæti.
Meðan þú situr í gærubólstraða stólnum þínum með te ,booztkrukku og meraki ilmkertið á kantinum hugsaðu þá aðeins út í þetta.
Eru þetta lífsgæði og hamingja?
Eða erum við orðin sjúk í þetta litla augnablik af gleði sem nýjir hlutir og vörur færa okkur?
Við elskum auglýsingar, við elskum þær svo mikið að við biðjum snappara um að sýna okkur hvað þeir eru að kaupa sér.
Þurfum við þetta til að lifa hamingjusömu lífi?
Er lífið í alvöru betra eftir að þú keyptir þér síðasta andlitskremið eða var það eftir að þú uppgötvaðir hvað það er ódýrt að panta af asos? Varð það betra þegar þú reimaðir á þig dr marteins skóna, togaðir einhverja af þessum 700 flíkum út úr fataskápnum og keyrðir útá land til að fá þér bröns
Það hlýtur að vera!
Við skulum halda áfram að mata sjálfan okkur með auglýsingum, því næstu mánaðarmót verð ég einum hlut nær hinu innihaldsríka og fullkomna lífi sem ég bara veit að mun gera mig meira hamingjusama.