Íslenskur bílstjóri skrifaði færsluna hér fyrir neðan til hjólreiðafólk eftir háskalega reynslu í umferðinni.
Við fundum hana á Facebook og ákváðum að deila færslunni með ykkur:
Þið vonandi afsakið hvað þetta er langt, en ég bið ykkur samt að renna yfir þetta, sérstaklega ef þú ert hjólreiðamaður
Kæra hjólreiðafólk, þó svo að þið hjólið hratt og eruð í frábæru formi og þið flykkist á göturnar allir sem einn út um allar koppagrundir, viljið þið ykkar og þeirra sem ykkur þykir vænt um vegna að vera ekki FÁVITAR í umferðinni?
Ég vinn mikið við akstur og er mikið á ferðinni. Ég sé ykkur oft þegar þið komið að gangbrautum (ekki með gangbrautarljósi) og þið sjáið mig, en yfirleitt finnst ykkur ég eiga að stoppa frekar en þið þó svo að ég sé kannski á full lestuðum sendibíl og eigi mun erfiðara með það en þið. Kurteisi nefnilega þarf að ganga á báða vegu.
En, þið eruð ekki alslæm. Um daginn þá kom upp einmitt svona atriði, hjólreiðamaður, heavy flottur í spandexi frá toppi til táar, leitaðist eftir að ná við mig augnsambandi og ég veifaði honum bara að skella sér yfir, hann þakkaði fyrir sig og brosti og ég brosti tilbaka, allir glaðir og ekkert vesen.
Í dag aftur á móti lenti ég í, eða öllu heldir hjólreiðamenn lentu í ansi hættulegum aðstæðum oftar en einu sinni. Ég var að aka Skútuvog og síðan Vatnagarða í vestur einu sinni sem oftar, báðir vegir einbreiðir, en ekki mikil umferð. Í Skútuvogi fer ég fram úr þremur hjólreiðaköppum, útur spandexaðir á því, nema þegar ég er að fara að beygja til vinstri hjá Holtagörðum þá ákveður einn spaðinn að taka fram úr mér vinstra megin á meðan ég er að beygja!! Minnstu munaði að ég hefði valtaði yfir kaptein spandex. Ekki veit ég hvernig honum datt þetta í hug, því þetta er það síðasta sem að ökumaður á von á. Nema hvað, ég furða mig á þessu og held áfram ferð minni niður Vatnagarða. Fyrir framan mig er bíll sem fer nú ekki of hratt, kannski 35 km/h. Eitthvað fór þetta nú í taugarnar á spandex elítunni því að ég sá í myndavélinni á bílnum (sem vísar aftur á bak) að tveir spandex ofurhugar voru kannski tveimur metrum (í mesta lagi) fyrir aftan mig. Sem þýðir að ég hefði þurft að hemla skyndilega hefðu þeir tapað þeirri orrustu, því hvorugur gat séð fram fyrir bílinn hjá mér, því að ég sá þá ekki í speglunum og hefði ekki verið fyrir myndavélina þá hefði ég ekki vitað af þeim. Til að vara við hættulegum aðstæðum ákvað ég að blikka aðeins bremsuljósunum. En þá fannst þessum tveim allra hugrökkustu (lesist vitlausustu) að ætla að gera sig líklega til að fara fram úr mér SITT HVORU MEGIN og þar af annar Á MILLI BÍLS OG VEGRIÐS!!! WHAT THE FÖKK?!
Nú ek ég líka mótorhjóli og við þá iðju klæði ég mig í alls konar hlífðarfatnað ef ég skyldi nú falla. En eitt er vist, aldrei myndi ég þora að hjóla eins og þessir vitringar gerðu í dag.
Ekki held ég að sé að framleitt spandex úr einhvers konar kevlar eða öðrum ofurhetjuklæðum, því fannst mér full óvarlega farið af þessum hjólreiðahetjum, því ég veit að spandex ver fólk ekki mikið fyrir járni og malbiki á margra tuga km. hraða.
Mér finnst eðlilegt, að ef hjólreiðamenn ætla sér að vera úti á götu að þeir fylgi sömu umferðarreglum og venjum og við hin, því jú, öll viljum við koma heil heim og ég er alls ekki viss um það að ég kæmi heill út úr því að hafa örkumlað eða banað vegfarenda, þó svo að ég hafi ekki gert neitt rangt.
Að þessu öllu sögðu, þá óska ég ykkur öllum gleðilegs sumars og megi allir vegfarendur sem á vegi mínum verða sýna meira vit og tillitsemi við líf sitt og annara í umferðinni en þessir misvitringar í dag.
Góðar stundir