Auglýsing

Lögreglan þarf enn að hafa MIKIL afskipti af ökumönnum á Suðurlandi – „Sá sem hraðast ók mældist á 168 km hraða“

Lögreglan á Suðurlandi er búin að vera dugleg að segja frá því á Facebook að hún sé að fylgjast grannt með ökumönnum og í raun vara þá við því að brjóta lögin.

Þetta hefur því miður ekki haft fælingarmáttinn sem við hefðum náttúrulega öll vonast eftir og lögreglan hefur samt þurft að hafa mikil afskipti af ökumönnum í allt sumar.

Gott dæmi um það er þessi nýlega færsla hér fyrir neðan og svo öllu alvarlegri færsla frá þeim fyrir neðan það, sem er frá því fyrir nokkrum vikum síðan.

Það er gott að vita af þeim á vaktinni og vonandi munu áframhaldandi samskipti þeirra á samfélagsmiðlum hvetja fólk til að passa sig betur í umferðinni.


Í vikunni sem er að líða hafa 110 ökumenn verið kærðir fyrir hraðakstur í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi. Sá sem hraðast ók mældist á 168 km hraða á Suðurlandsvegi nærri Hvolsvelli og á hann von á því að vera sviptur ökuréttindum.

Átta ökumenn voru kærðir fyrir að aka undir áhrifum áfengis og þremur ökumönnum til viðbótar var gert að hætta akstri sökum áfengisáhrifa sem mældust undir sviptingarmörkum. Þá voru fimm ökumönnum gert að hætta akstri þar sem ökuréttindi þeirra voru útrunnin.

Níu ökumenn voru kærðir fyrir að nota farsíma við akstur án þess að nota handfrjálsann búnað. Þar að auki voru sex ökumenn kærðir fyrir að nota ekki öryggisbelti við aksturinn. Tveir ökumenn voru stöðvaðir í akstri þar sem bifreiðar þeirra voru ekki vátryggðar og var þeim gert að hætta akstri og voru skráningarmerki bifreiðana fjarlægð.

Tíu minniháttar umferðaróhöpp voru tilkynnt lögreglu. Minniháttar meiðsli urðu á fólki í þessum óhöppum. Lögregla hvetur ökumenn til að huga að bili milli ökutækja sem og að hafa óskipta athygli við aksturinn.

Lögregla mun áfram halda uppi öflugu eftirliti á vegum umdæmisins og eru bæði nýttar merktar sem og ómerktar lögreglubifreiðar við þetta eftirlit. Ökumenn eru sérstaklega hvattir til að huga að ástandi ökutækja sinna og skoða ástand ljósabúnaðar núna þegar tekið er að dimma.


Það er því miður hætt að heyra til tíðinda að erlendir ökumenn séu stöðvaðir vegna hraðaksturs hér á landi. Gærdagurinn hvað þetta varðar var engin undantekning hjá lögreglunni á Suðurlandi en alls voru 45 ökumenn kærðir fyrir hraðakstur í umdæminu í gær. Stærstur hluti þessara ökumanna voru sem fyrr segir erlendir ferðamenn.

Sá sem hraðast ók var mældur á 152 km hraða á Mýrdalssandi og kvaðst ökumaður hafa gleymt sér þar sem hann hafi verið svo hugfanginn og snortinn af landslaginu. Tveir aðrir ökumenn voru mældir á sviptingarhraða eða 146 og 147 km hraða.

Nær allir ökumenn greiddu sektina á staðnum og ef eingöngu er horft á þá 26 ökumenn sem kærðir voru fyrir hraðakstur á Mýrdalssandi milli Víkur og Kirkjubæjarklausturs greiddu þeir samtals rúmlega 1,6 milljónir króna í sekt.

Ekki er lengra síðan en síðastliðinn föstudag 9.ágúst að erlendir ferðamenn veltu jeppabifreið sinni á þessum vegarkafla á þjóðvegi 1 í Eldhrauni skammt vestan við Kirkjubæjarklaustur.

Valt bifreiðin að minnsta kosti 7 veltur og endaði á hvolfi ofan í hraungjótu og flutti þyrla Landhelgisgæslunnar þá fjóra sem í bifreiðinni voru á slysadeild LSH í Fossvogi.

Ekki er vitað hvort hraðakstur hafi átt þátt í umræddu slysi sem er til rannsóknar hjá embættinu en engin úr slysinu er í lífshættu.

Ef litið er á heildarsektargreiðslu þessara 45 ökumanna sem kærðir voru fyrir hraðakstur í gær hjá embættinu nemur sektarfjárhæðin samtals um 3 milljónir króna.

Lögreglan á Suðurlandi mun hér eftir sem endranær vera virk í hraðaeftirliti í umdæminu ásamt því að kanna ástand ökumanna og með því reyna að draga úr möguleikum á alvarlegum slysum í umferðinni.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing