Þann 1. mars verður bjórinn á Íslandi 28 ára gamall. Til að fagna þessum fína aldri mun Víking brugghús í samstarfi við Mið-Ísland halda partý á heimavelli Víking, Ægisgarði.
Eftir langar og gríðarlega flóknar viðræður um verkaskiptingu var það afráðið að Mið-Ísland myndi stýra dagskránni en Víking brugghús sæi um veigarnar. Allar 18 bjórdælur hússins verða í notkun og úrvalið umtalsvert.
Húsið opnar kl. 18:00 og verður sérstakt happy-hour verð á bjórnum til kl. 20:00 þegar eiginleg dagskrá hefst. Vilji gestir eitthvað umfram það fljótandi fæði sem verður á boðstólnum skal enginn örvænta því Priks-bíllinn verður á staðnum með sína gómsætu borgara.
Meðal dagskrárliða verður svokallað Góðgerðarhappdrætti þar sem gestum gefst færi á að vinna til skemmtilegra vinninga. Miðar í happdrættið verða seldir á staðnum. Allur ágóði af happdrættinu rennur til Barnaspítala Hringsins.
Aðgangur er ókeypis. Allar 28 bjórtegundir hússins verða á 500 kr. milli kl. 18:00 og 20:00 en verða á 800 kr. eftir það.
Komdu, drekktu, hlæðu og styrktu góðan málstað!