Ósk Norðfjörð hefur gengið í gegnum fleiri meðgöngur en flestar kynsystur sínar – eða alls eru þær sjö talsins. Hún hóf barneignir árið 1998 og eignaðist sitt síðasta barn 2014. Síðan þá hefur hún unnið að því að komast í sitt besta form – og sló ekki slöku við á þeirri leið.
Ljósmyndir tók Ólafur Harðarson
Við heyrðum stuttlega í Ósk og spurðum hana út í hvernig þetta hefði gengið fyrir sig.
„Èg setti mér það markmið þegar ég gekk með Ósk litlu að koma mér í besta form sem ég hef verið í á ævinni eftir sjö meðgöngur. Ég held að mér hafi loksins tekist það. Bæði andlega og líkamlega. Ég er mjög hamingjusöm.“
Verða meðgöngurnar eitthvað auðveldari eftir því sem þeim fjölgar?
Mínar meðgöngur hafa allar gengið mjög vel. Að vera ólétt verður okkur konunum eðlilegra. Með hverri meðgöngu lærir maður og tekur mat af fyrri meðgöngum. En þær geta verið misjafnar, það sem ég held að skipti mestu máli er bara að njóta sín á meðgöngunni og hugsa vel um sig. Passa upp á að maður veiti sér það sem er gott fyrir líkamann. Ég tek mikið af vítamínum frá Lifestream og borða mikið af allskonar berjum. Ég hef verið dugleg að halda daglegum lífstíl áfram og breyti engu þótt ég sé ólétt. Ég fer til dæmis alltaf í ræktina og sund fram á síðasta dag og passa uppá mataræðið. Ég hef verið heppin með „kreifings“ á meðgöngu – sem dæmi hef ég fengið æði fyrir hnetum, grænum lurk, ostapoppi og núna síðast voru það ísklakar frá Subway. Maðurinn minn fór ófáar ferðir á nóttunni til að sækja klaka handa mér!
Í hvernig ástandi var líkaminn þegar þú varst að byrja að koma þér í form eftir sjöundu meðgönguna?
Ég var 20 prósent fita og magavöðvarnir í klessu og var farin að vera aðeins of mjúk að mínu mati. Ég var orðin þá 67 kíló, sem er það þyngsta sem ég hef verið. Ég var búin að vera mikið að lyfta lóðum í sal en breytti til og ákvað að gera eithvað nýtt. Ég fór í tíma í Spinning og Body Pump og svona þrektíma. Þetta finnst mér mjög gaman og hefur skilað mér miklum árangri. Ég er núna búin að léttast um um 11 kíló og bæta vöðvamassa ég er núna 56 kíló og 9 prósent fita.
Er erfitt að hvetja sig af stað andlega eftir meðgöngu?
Ég hef alltaf haft mikinn vilja til að komast aftur í fötin mín eftir meðgöngu. Og fyrir mér hefur það alltaf verið mikilvægt að huga vel að mér og passa uppá líkamann. Ég er miklu betri mamma þegar ég er í góðu formi og með meira úthald og orku til að hugsa um öll krílin mín og hlaupa eftir þeim.
Hvaða ráð hefurðu fyrir konur sem eru að koma sér af stað eftir óléttu?
Ef ég ætti að gefa mömmum ráð þá mundi það vera að setja sér raunhæf markmið. Skoða hvað er í boði, prófa sig áfram og velja sér eitthvað af því sem þú hefur gaman af að gera. Mesti árangurinn hjá manni er alltaf ef maður er að gera það sem gleður mann. Eftir hreyfingu fær maður endorfín, við það róast maður, þá gengur allt miklu betur og maður er hæfari að takast á við daginn. Allavega virkar þetta svona fyrir mig.
Hvernig gekk að pússla saman uppeldinu og ræktarferðunum og öðru?
Ég æfi oft þegar þau eru á íþróttaæfingumm fótboltaæfingu eða frjálsum. Síðan er rosalega góð barnagæsla í Sporthúsinu og við förum oft þangað.
Og svona að lokum – á að eignast fleiri börn?
Nei karlinn er kominn úr sambandi!