Rithöfundurinn og kennarinn Sævar Helgi Bragason setti þessa færslu á Facebook þar sem hann kemur með litla sögu sem endar í ruslatunnu í Menntaskólanum í Reykjavík.
Sagan hefur vægast sagt vakið fólk til umhugsunar.
Í Ástralíu grófu stórvirkar vinnuvélar upp báxít sem ekið var burt í verksmiðju sem breytti því í súrál. Súrálið var flutt í þungu fraktskipi til Íslands til að vinna úr því ál með rafskautum úr kolefni. Til þess þurfti mikið rafmagn sem framleitt var með því að eyðileggja land. Frá Íslandi var siglt með álið til Hollands þaðan sem því var dreift um Evrópu þar sem álið var pressað og dós búin til í verksmiðju sem knúin var af kolum.
Dósin var flutt til Svíþjóðar og hún síðan send aftur með skipi til Íslands, í þetta sinn barmafull af bragðbættu koffínvatni. Á hafnarbakkanum sótti sendibíll dósina og ók henni í verslun. Áhrifavaldar hvöttu framhaldsskólanema til að drekka orkudrykkinn sem þau svolgruðu í sig á örfáum mínútum. Dósinni var svo hent í ruslið sem síðan var grafið í jörðina. En það gerir ekkert til því dósin er úr umhverfisvænasta málmi í heimi.
Þannig hljóðar sagan af einni Nocco dós í ruslatunnu í Menntaskólanum í Reykjavík.