Auglýsing

Sóli barðist hetjulega við erfið veikindi: „Það var auðvitað sjokk að fá krabbamein“

Grínistinn Sóli Hólm greindist með krabbamein tveimur mánuðum eftir að hann flutti inn með fjölmiðlakonunni Viktoríu Hermannsdóttur. Hann, sem er einn vinsælasti skemmtikraftur og eftirherma landsins, barðist hetjulega við erfiðan sjúkdóminn.

Sóli og Viktoría höfðu aðeins verið saman í nokkra mánuði þegar alvara lífsins bankaði upp á. Sjálf segjast þau ekki taka lífinu of alvarlega og hafa þau tekist á við öll sín verkefni á einstakan hátt með jákvæðni, æðruleysi og húmor að vopni.

Tveimur mánuðum eftir að þau fluttu inn saman greindist Sóli með krabbamein:

„Það er svolítið óraunverulegt að þetta hafi gerst. Auðvitað gekk þetta allt rosalega vel. Þó svo ég hafi ekki verið í lífshættu þá komst ég í meiri snertingu við dauðleikann og það er bara þroskandi. Það var auðvitað sjokk að fá krabbamein en svo tók bara við lyfjameðferð og allt sem þarf að gera. Það var aldrei neitt bakslag heldur gekk frekar bara betur en það átti að gera. Við þroskuðumst bæði rosalega mikið á þessu og öðluðumst nýja lífssýn,“ segir Sóli.

Sóli ákvað að tala opinskátt um sín veikindi alveg frá upphafi. Hann tók sjálfur eftir því að lítið sem ekkert var um jákvæðar frásagnir af fólki sem hefur greinst með krabbamein.

„Ég var náttúrlega ótrúlega heppinn og því miður eru ekki allir svona heppnir sem greinast með krabbamein. Ég ákvað aldrei að vera jákvæður, ég bara varð það. Þess vegna get ég ekkert sagt fólki að vera jákvætt, ef þér líður illa þá bara líður þér illa. Jákvæðnin kom bara svolítið náttúrulega hjá mér og ég held hún sé bara svolítið í mínu eðli,“ segir hann.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing