Pistlahöfundurinn Chelsea Fagan skrifar pistla og greinar fyrir vefsíður og heilsutímarit um allan heim. Hér fyrir neðan er pistill sem hún skrifaði fyrir Distractify um það hvernig hún hætti að vera B týpa og varð morgunmanneskja – á einungis 2 vikum:
„Allt mitt líf hef ég hatað að vakna snemma. Ég er einfaldlega ekki góð í því. Þess vegna gerði ég allt sem ég gat til þess að forðast það. Svefnvenjur mínar gerðu mér erfitt fyrir í vinnu, ég mætti oft seint og það kostaði mig næstum því skólagönguna!
Og sama hvað ég gerði, hvort ég leitaði hjálpar eða prófaði lyf – þá var líkt og lífsklukkan mín væri með óbreytilegri stillingu og ætlaðist til þess að ég færi að sofa klukkan 3 á nóttunni og svæfi til 12 á hádegi.
Ég hélt að þetta væri eitthvað sem ég þyrfti að sætta mig við það sem eftir er. Að ég væri þessi svokallaða B týpa.
Þrátt fyrir að ég hafði trúað því allt mitt líf að ég væri dæmd til þess að sofa til hádegis, þá hætti ég að vera B týpa í síðasta mánuði og er nú orðin morgunmanneskja.
Ég vinn heima hjá mér og sama hversu auðvelt það væri að sofa út þá hef ég ekki sofið lengur en til 10.30 í meira en mánuð og oftast vakna ég á milli 8 og 9 – og ég nota aldrei vekjaraklukku.
Svona fór ég að því að verða morgunmanneskja á aðeins tveim vikum.
1. Ég byrjaði með forskoti
Þegar ég byrjaði í árangursríka „að verða morgunmanneskja“ verkefninu mínu var ég nýkomin til New York frá Frakklandi. Tímamismunurinn var 6 klukkustundir og þess vegna var ekki erfitt (í fyrsta skipti í lífinu) að fara að sofa snemma og vakna klukkan 7, þegar lífsklukkan mín var enn stillt á franska tímann.
Á meðan fyrstu dagarnir eru venjulega erfiðastir, þá byrjaði ég með forskoti og hélt mig alfarið við frönsku klukkuna.
2. Ég hélt áfengisdrykkju í lágmarki
Höfuðverkur, leti og almennur viðbjóður er óneitanlegur fylgifiskur áfengisdrykkju. Jafnvel þótt ég færi í rúmið snemma þá fann ég að ef ég vildi koma upp rútínu þá þyrfti ég að takmarka drykkju.
Höfuðverkurinn er ekki þess virði, svo núna fæ ég mér ekki drykk oftar en einu sinni í viku.
3. Ég hafði gluggatjöldin dregin frá, alltaf.
Að hleypa náttúrulegu ljósi inn og á andlitið er ótrúlega hjálplegt þegar kemur að því að stilla lífsklukkuna upp á nýtt. Það leyfir okkur að vakna hægar en við verðum ferskari og okkur kvíður síður fyrir því að fara á fætur.
(Þetta á kannski lítið við í febrúardimmunni hér á Íslandi, en á víst samt að hafa áhrif)
4. Ég losaði mig við „blá ljós“.
Áður fyrr var ég rosalega á móti „engir símar í rúminu“ reglunni, en ég áttaði mig ekki á því að þeir koma í alvöru í veg fyrir að maður sofni eðlilega!
Af öllum breytingunum sem ég gerði var besta ákvörðun mín að fá mér fá mér smáforrit sem fjarlægir skæru birtuna frá símaskjánum („light neutralizing“ ef þú vilt prófa).
5. Ég lét ekki neitt trufla svefninn minn.
Þetta hljómar ekki eins og skemmtilegasta regla í heimi og fyrstu tvær vikurnar í „átakinu“ mínu þá hafði þetta veruleg áhrif félagslífið mitt. Ég fór út meðal vina en passaði mig að vera alltaf komin heim snemma svo ég missti af hittingum sem hljómuðu mjög spennandi.
En svo þurfti ekki meira en tvær vikur til að ég finndi jafnvægið. Um leið og ég hafði vanið mig á að fara að sofa á réttum tíma þá fór ég út og skemmti mér og það hafði ekki nein slæm áhrif. Þegar ég lít tilbaka þá voru þessar tvær rólegu vikur vel þess virði.
6. Ég fór út!
Í janúarfrostinu var þetta erfiðasta regla í heimi. En staðreyndin er sú að það er svo ótrúlega mikið auðveldara að fara í rúmið eftir að hafa eytt tíma utandyra.
Ég gerði þetta í brjáluðu janúarfrosti og stundum jafnvel fyrir vinnu, með sólarupprásinni.
Fyrst ég gat þetta, þá er ekkert því til fyrirstöðu að þú getir það líka!“