Auglýsing

Þórunn birti mynd af barni á flótta – og textinn gæti sett íslenska ráðherrann kjaftstopp

Þórunn Ólafsdóttir setti þennan texta á Facebook í kjölfar ummæla Gunnars Braga um að sauðfjárbændur væri ekki síður mikilvægir en flóttafólk.
Hér er textinn:
Ég er reyndar alveg sammála Gunnari Braga um að börn á flótta séu ekki mikilvægari en íslenskir sauðfjárbændur. En sauðfjárbændur eru heldur ekki mikilvægari en börn á flótta. Fólk er jafn mikilvægt, sama hvaðan það er, við hvað það starfar eða hvað það er að flýja.

Ég veit vel að staða margra sauðfjárbænda er slæm, enda komin af slíkum. En að draga börn á flótta inn í þá umræðu er skilningsleysi fyrir aðstæðum allra sem um ræðir.

Ég get ekki endurtekið nógu oft hversu mikilvæg skylda okkar er að koma börnum á flótta í öruggt skjól. Slíkt þolir alls enga bið og á að gera alveg óháð öðrum málum sem líka þarf að leysa og sem allra, allra fyrst því líf þeirra og öryggi er í hættu. Stjórnmálafólk sem notar vernd barna á flótta sem dæmi um óábyrg stjórnmál eða ráðstöfun fjármuna þyrfti að leggja metnað sinn í að skilja um hvað málið snýst, eða láta fólk sem skilur það taka ákvarðanir í slíkum málum. Það eru í alvörunni líf í húfi og fólk sem talar svona ógnar þeim enn frekar.

Á meðfylgjandi mynd er barn á flótta, gjörsamlega örmagna á bryggju á Lesbos. Ekki öll börnin í sama bát lifðu af. Ég veit það vegna þess að ég var þarna og hélt utan um gamla konu á meðan við horfðum á menn reyna að lífga pínulítinn líkama við, án árangurs. Gamla konan hristist og skalf af nístandi blöndu af harmi og kulda. Henni var bjargað úr sjónum og hún var enn í rennblautum fötum. Fæturnir báru hana ekki og ég man ekki hvernig mér tókst að halda okkur báðum uppréttum. Hún grét sárt en ég stóð bara frosin. Fylgdist með þessum óbærilega raunveruleika og skildi ekki hvernig heimurinn gat orðið svona. Skil það ekki enn, en ég veit að hann er ekki svona fyrir tilviljun heldur vegna óábyrgra stjórnmálamanna með of mikil völd. Þetta litla barn dó ekki í slysi, þó það standi líklega í dánarvottorðinu, heldur vegna þess að stjórnmálafólk taldi öryggi þess ekki mikilvægt.

Barnið á myndinni var heppið að lifa sjóferðina af. Hvernig yfirvöld hafa farið með líf þess síðan veit ég ekki. En mikið vona ég að einhver hafi forgangsraðað rétt í þágu þessa litla barns. Það er aldeilis ekki sjálfgefið og virðist svo órafjarri fólki sem ekki skilur eða vill skilja hvað flótti er og hvað hann gerir börnum.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing