Auglýsing

„Ég er ekki SKÍTHÆLL!“ segir íslenskur maður sem þjáist af þunglyndi – aðsendur pistill

Covid dregur landsmenn alla niður en þeir sem voru viðkvæmir fyrir eiga mjög erfitt núna. Það er mikilvægt að dæma ekki aðra án þess að vita sögu þeirra.

Hér er hugrakkur maður sem lýsir upplifun sinni af þunglyndi.

Ég er alltaf þreyttur. Sama hversu mikið ég sef þá langar mig að sofa meira. Mig langar ekki að fara út úr húsi. Mig langar ekki einu sinni að fara fram úr rúminu. Mig langar að toga sængina upp að höku og sökkva ofan í koddann.

Þegar fólk reynir að hafa samband við mig, fólk sem mig langar að hafa hjá mér, fólk sem ég elska meira en lífið sjálft, þá hunsa ég þau samt. Ég sendi þeim sms og nota ekki meira en eitt orð. Ég neita þeim þegar þau reyna að fá mig með sér út.

Það er ekki það að ég vilji ekki hitta fólkið. Mig langar það, mig langar bara ekki að eyða tímanum þeirra eða valda þeim vonbrigðum. Ég veit að þegar þau biðja mig um að koma með sér út eru þau að búast við einhverjum með risa bros og brjálaðar sögur. Ekki einhverjum sem er að ganga í gegnum erfiðleika.

Ég er hræddur við að láta þau sjá mig því ég er ekki viss um það hvaða hlið af mér á eftir að mæta. Reiða hliðin sem lætur litlu hlutina pirra sig? Sorgmædda hliðin sem grætur út af engu? Vælu hliðin sem kvartar út af öllu? Eða „allt í lagi“ hliðin sem brosir þangað til henni líður ágætlega í smá stund?

Mig langar ekki að fólkið sem ég elska sjái mig þegar mér líður sem verst. Ég vil ekki að þau hafi áhyggjur af mér. Þegar ég er með vinum mínum líður mér eins og ég sé að valda þeim vonbrigðum með því að hlægja ekki nógu mikið af bröndurunum þeirra. Með því að segja ekki mikið. Með því að vera stanslaust að hugsa um afsökun til að fara snemma heim frá þeim. Með því að vera ekki „ég sjálfur“.

Ég vil ekki að þau taki ástandinu mínu persónulega. Ég vil ekki að þau haldi að mér finnist þau ekki skemmtileg og að mér finnist ekki gaman með þeim.

Það væri frábært ef ég gæti sagt þeim hvernig mér líður, hleypa þeim almennilega inn, en það virðist ómögulegt. Ég veit ekkert hvað ég gæti sagt. Ég get ekki útskýrt afhverju mér líður svona. Ég er leiður yfir ekki neinu og ég er leiður yfir öllu.

Svo ég segi ekki neitt. Og læt þeim óvart líða eins og ég treysti þeim ekki. Eins og við séum ekki nógu náin til að deila tilfinningum okkar. Ég geri mér grein fyrir því að þunglyndi lætur mig líta út eins og skíthæl. Eins og mér sé sama um allt og alla. En raunverulega þá er mér bara sama um sjálfan mig.

Þunglyndið mitt sannfærir mig um það að ég sé einskis virði, þannig að þegar ég hunsa skilaboðin þín þá fæ ég ekki samviskubit og spái ekkert í því hvort ég sé að særa einhvern sem ég elska. Mér líður eins og ég sé að gera þér greiða. Eins og ég sé að bjarga þér frá viðbjóðnum sem fylgir því að eiga mig sem vin. Mér líður eins og ég sé að gefa þér ástæðuna sem þú ert búinn að vera leita af til þess að losa þig við mig úr lífi þínu, gleymt því að ég hafi einhvern tímann verið til.

Þegar þunglyndið mitt tekur yfir hætti ég að elska sjálfan mig. Ég skil ekki að þú viljir í alvöru hitta mig. Að þú saknir í alvöru að horfa í augun mín og heyra röddina mína. Að þér þykir í alvöru vænt um mig.

Svo ef ég særi þig óvart langar mig að biðja þig um að taka því ekki of nærri þér. Ég er ekki að reyna vera dónalegur. Ég er bara að reyna komast í gegnum daginn.

Þökkum fyrir þennan pistil. Hægt að senda efni í gegnum FB síðu Menn.is ef þú vilt tjá þig um eitthvað sem liggur á hjarta.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing