Hún Ólöf Dóra setti þessa færslu í opna Facebook hópinn ‘Íbúasamtökin Betra Breiðholt’ þar sem hún varar við manni sem olli barni ótta og óöryggi í strætó.
Sumum virðist finnast skrýtið að tilkynna málið til lögreglu og auglýsa það í hverfis Facebook grúppu, á meðan öðrum finnst allur varinn góður í þessum málum.
Ágætu íbúar Breiðholts
Mér ber skylda til að láta vita af atviki sem átti sér stað í strætó sem keyrir um Breiðholtið, leið 4, á mánudag sl. um fimmleitið.
Barn mér nákomið var statt í vagninum og þegar það þrýsti á hnappinn til að gefa merki um að það ætlaði út, stóð maður upp og tók sér stöðu við útganginn. Þegar barnið stóð við útganginn og beið eftir að dyrnar opnuðust spurði maðurinn hvert barnið væri að fara og hvort það færi alltaf út þarna.
Maðurinn elti þó ekki barnið út, en þetta olli barninu ótta og óöryggi.
Atvikið var tilkynnt til lögreglu.
Þetta kann að hafa verið saklaus uppákoma, og það er vel hugsanlegt að maðurinn hafi ekki haft neitt illt í huga, en þetta olli ótta og því ástæða til að vekja athygli á þessu.