Trúboðarnir Angela Cummings og Simon Ott eru stödd hér á landi til að segja þjóðinni sannleikann og bjarga Íslandi. „Hversu hræðilegt væri að vera krabbameinslæknir og deila ekki lækningunni við krabbameini með fólki,“ segir hún um trúboð sitt.
Elísabet Inga, útsendari Nútímans, hitti Angelu og Simon. Horfðu á myndbandið hér fyrir ofan.
Nútíminn fjallaði um trúboðana Angelu Cummings og Simon Ott í gær. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði afskipti af þeim fyrir utan húsnæði Menntaskólans við Hamrahlíð á fimmtudag. Lögregla var svo aftur kölluð til nokkru síðar eftir þau eltu nemendur skólans niður á Klambratún og héldu áfram að veitast að unglingum þar.
Sjá einnig: Trúboði keypti miða aðra leið til Íslands: „Elskaðu mig eða hataðu mig, en það er erfitt að hunsa mig“
Spurð hvers vegna þau reyna að ná til þeirra sem hafa engan áhuga á því að hlusta segir Angela að Jesús hafi dáið á krossinum fyrir alla. „Hvort sem þau mæta í kirkju eða ekki. Þeir sem trúa verður bjargað en þeir sem trúa ekki verða fordæmdir,“ segir hún.
Angela segir að ástæðan fyrir því að þau komu til Íslands hafi verið frétt um að 0 prósent íslenskra ungmenna trúi að Guð hafi skapað heiminn. „Ég hugsaði um Ísland allt árið. Þetta var í janúar og Guð breytti áætlun minni. Ég ætlaði að fara til Taílands og Hong Kong,“ segir hún.
Guð talaði við mig. Ég fór í fangelsi í Hollandi fyrir að predika — ég var handtekin fyrir hatursglæp. Í fangelsinu hafði ég nægan tíma til að biðja. Að krakkarnir hafi hatað okkur í gær lætur mig elska Ísland meira.
Angela segist vita um lækninguna við syndinni. „Þegar ég varð kristin hætti ég að stunda kynlíf. Fólk er að stunda kynlíf utan hjónabands og eignast börn. Ég skal segja þér lausnina við vandanum: Ekki stunda kynlíf.“
En þetta er líkaminn minn. Ákveð ég ekki hvað ég geri?
„Þú getur það. En þú getur fengið flatlús. Þú getur fengið ýmislegt og þú gætir eignast barn,“ svarar Angela.
Spurð hvað þeim finnst um hjónabönd samkynhneigðra segir Simon að það sé óeðlilegt. „Í gær hittum við einn sem sagði okkur að bróðir hans hafi verið hommi en er núna gagnkynhneigður.“
Simon hyggst dvelja áfram á Íslandi en Angela hyggst snúa aftur til Bandaríkjanna. „Ísland þarf að heyra sannleikann.“
Ætlarðu að bjarga okkur?
„Ég held að það sé ekki mögulegt því þið munið eflaust streitast á móti.“
Þegar viðtalinu var lokið var Simon vísað út af hótelinu. Hann sá stúlku sem var klædd í stutt pils. Hann sagði hana „líta út eins og hóru“ og að þess vegna hafi hann ákveðið að tala við hana.