Emmsjé Gauti hefur birt stutta endurgerð á smellinum Sigurjón digri með Stuðmönnum. Egill Ólafsson bregður sér í hlutverk Sigurjóns digra í myndbandinu sem má sjá hér fyrir neðan.
Tilefnið er tónleikaferð um landið sem Nútíminn sagði frá fyrir skömmu. Miðar fást hér. Spurður hvernig var að vinna með Agli Ólafssyni segir Gauti að reynslan hafi hreinlega lekið af honum. „Fagmennska út í gegn,“ segir Gauti.
Það var mjög erfitt að ná á hann til að byrja með og útskýringin er sú að honum líkar ekki vel við síma að eigin sögn.
Upprunalega stóð til að Gauti myndi sjálfur syngja hluta Sigurjóns digra í laginu en Egill tók það ekki í mál. „Þegar hann mætti á svæðið þá vildi hann fá að syngja sjálfur sem er frábært því það kom miklu betur út þannig,“ segir Gauti.
„Við eyddum saman deginum í að taka upp myndbandið og seinna um kvöldið fórum við í stúdíó og kláruðum lagið. Egill er með dáleiðandi rödd og við vildum helst hafa hann áfram í stúdíóinu.
Við fengum nokkrar bransasögur beint í æð í leiðinni — Egill hefur verið það lengi í tónlistarbransanum að ég er að spá í að plata hann til þess að gera heila plötu með mér bara til þess að fá fleiri sögur með þessum þægilegu raddböndum. Massíf ást á Stuðmenn, það legendary band fyrir að leyfa okkur að endurgera þetta gull.“